Fréttasafn



29. ágú. 2025 Almennar fréttir Efnahagsmál Fréttatilkynning

Ábyrg gagnaversstarfsemi á Íslandi - yfirlýsing frá DCI og SI

Samtök gagnavera (DCI) og Samtök iðnaðarins (SI) hafa gefið út eftirfarandi yfirlýsingu:

Samtök gagnavera og Samtök iðnaðarins gera alvarlegar athugasemdir við ummæli forstöðumanns netöryggissveitar íslenskra stjórnvalda, CERT-IS, í fjölmiðlum í gær um íslenskan gagnaversiðnað og að íslensk gagnaver séu meira aðlaðandi en mörg önnur fyrir aðila til að stunda peningaþvættisglæpi.

Íslenskur gagnaversiðnaður hefur átt ríkan þátt í að byggja upp öfluga stafræna innviði hér á landi. Allir félagsmenn Samtaka gagnavera, sem reka alhliða gagnaver, hafa sótt sér alþjóðlegar öryggisvottanir og er sterk öryggismenning forsenda þess að hægt sé að reka öfluga gagnaversstarfsemi hér á landi.

Gagnaver á Íslandi starfa í nánu samstarfi við innlendar og erlendar stofnanir til að koma í veg fyrir misnotkun og taka málefni sem varða netöryggi mjög alvarlega. Samstarf við íslensk lögregluyfirvöld er mjög traust. Tilvik eða einstök atvik þar sem innviðir kunna að vera misnotaðir í glæpsamlegum tilgangi heyra til algjörra undantekninga en í slíkum tilfellum taka við skýrir verkferlar og viðbrögð í samstarfi við yfirvöld.

Samtökin hafa nú fengið það staðfest frá lögregluyfirvöldum að það tilfelli sem var til umræðu í fjölmiðlum í gær tengist ekki námugreftri rafmynta í búnaði í íslensku gagnaveri heldur var um að ræða alþjóðlega glæpastarfsemi sem var meðal annars hýst á netþjóni leigðum frá íslensku hýsingarfyrirtæki sem var grandalaust um að eitthvað saknæmt ætti sér stað. Ekki sé um að ræða aðrar tengingar við Ísland og aðkoma lögreglu hér á landi hafi takmarkast við að aðstoða erlenda rannsakendur við að fá aðgengi að netþjóni sem hýstur var hér á landi.

Svo virðist sem forstöðumaður CERT-IS hafi stigið inn í umræðuna byggt á misskilningi um málsatvik, eðli þeirrar starfsemi sem rannsóknin beindist að og tengsl hennar við íslensk fyrirtæki og íslenska innviði. Samtökin telja ummæli forstöðumanns CERT-IS um málið í heild sinni óábyrg og byggð á röngum forsendum, meðal annars um raforkuverð á Íslandi og meint auðvelt aðgengi að íslenskum gagnaverum, sem eru í engu samræmi við raunveruleikann hér á landi. Það er mikill ábyrgðarhluti að fram komi fullyrðingar frá íslensku stjórnvaldi, sem gegnir hlutverki viðbragðsteymis við ógnum, atvikum og áhættu á sviði net- og upplýsingaöryggis, að Ísland sé útsettara og því fýsilegri kostur en önnur lönd fyrir glæpastarfsemi, sérstaklega í ljósi þess að því fer víðs fjarri.

Björn Brynjúlfsson, formaður Samtaka gagnavera: „Íslenskur gagnaversiðnaður hefur ríka hagsmuni af því að tryggja að Ísland sé ábyrgur hýsingarstaður. Íslensk gagnaver innan vébanda Samtaka gagnavera búa við ríka öryggismenningu og starfa á alþjóðlegum markaði. Íslenskur gagnaversiðnaður byggir á traustum alþjóðlegum og viðurkenndum öryggis- og gæðastöðlum þar sem daglega er unnið að því að tryggja örugga og ábyrga hýsingu gagna. Viðskiptavinir þurfa að fara í gegnum sérstakt áreiðanleikamat og fylgja skýrum notendareglum sem eiga að koma í veg fyrir alla ólöglega starfsemi. Óskiljanlegt er að gefið hafi verið til kynna að gagnaversiðnaðar í landinu sé með einhverjum hætti fýsilegur kostur fyrir glæpastarfsemi. Við höfnum slíkum fullyrðingum algjörlega. Þar að auki standast fullyrðingar um ódýra orku til handa gagnaverum á Íslandi enga skoðun.“

 

Vísir, 29. ágúst 2025.

mbl.is, 29. ágúst 2025.

Bylgjan / Reykjavík síðdegis, 29. ágúst 2025.