Aðför að lögvörðum réttindum heillar stéttar
Samtök arkitektastofa, SAMARK, gera verulegar athugasemdir við frumvarp um breytingu á höfundalögum, mál 456, nr. 73/1972 þar sem tilgangur frumvarpsins sé í raun að afnema höfundarrétt hönnuða af mannvirkjum. Í umsögninni segir að hönnun mannvirkja sé listform sem hafi skapað mörg söguleg verðmæti. Það sé ljóst að verkið sé mannvirkið sjálft, fullbyggt, í takt við sýn hönnuðar þess en ekki einungis teikningarnar og tölvugögnin um hönnunina. Þá benda samtökin á að röksemdafærslan sem sett er fram í frumvarpinu fyrir breytingunum sé í besta falli vafasöm, þ.e. að ýja að því að verið sé að breyta höfundalögunum um hönnun mannvirkja til að þau séu í meira samræmi við höfundalög tónverka. Þetta sé mikil einföldun og með engum hætti hægt að bera saman við breytingar á hönnun mannvirkja, sem dæmi þá þurfi samþykki tónhöfundar ef tónverk er stytt, klippt bútur úr því, bætt við viðlögum eða erindum, texta breytt og fleira. Þessi rök eigi því á engan hátt við sem forsenda fyrir þessum breytingartillögum.
Samtök arkitektastofa eru ósammála efnistökum og útfærslu frumvarpsins og benda á mikilvægi þess að viðhöfð séu vönduð vinnubrögð þegar lagðar eru til breytingar á lögvörðum réttindum heillar stéttar. Skuli það gert með tilliti til hagsmuna höfunda, eigenda húsnæðis og almennings að leiðarljósi.
Hér er hægt að nálgast umsögn SAMARK í heild sinni.