Fréttasafn



7. feb. 2025 Almennar fréttir Efnahagsmál Mannvirki

Aðgerðir ríkis og sveitarfélaga draga úr uppbyggingu íbúða

Í nýrri greiningu SI kemur fram að aðgerðir síðustu ríkisstjórnar í skattamálum og skortur á lóðum hefur dregið úr uppbyggingu íbúða. Fjöldi nýrra íbúða í byggingu verður óbreyttur næstu tólf mánuði samkvæmt könnun sem Outcome framkvæmdi fyrir SI. Könnunin var lögð fyrir stjórnendur verktakafyrirtækja sem byggja íbúðir í eigin reikning. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar gera stjórnendur fyrirtækjanna ráð fyrir að hafist verði handa við byggingu 1.164 íbúða á næstu tólf mánuðum og á sama tíma verði lokið við byggingu á 1.216 íbúðum. 

Tæplega 89% stjórnenda segja að háir vextir hafi dregið úr áformum fyrirtækja þeirra um íbúðauppbyggingu en 11% segja að þeir hafi ekki haft áhrif. Þá segja 89% svarenda að hár fjármögnunarkostnaður muni leiða til samdráttar í uppbyggingaráformum fyrirtækjanna en aðeins 6% telja að það muni ekki gerast.

Þá kemur fram í könnuninni að 83% stjórnenda telja að lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði, úr 60% í 35%, hafi dregið úr íbúðauppbyggingu fyrirtækja þeirra. Síðasta ríkisstjórn réðst í þessa breytingu um mitt ár 2023 án fyrirvara. Samkvæmt svörunum hefur þessi breyting dregið úr fjölda nýrra íbúða sem koma inn á markaðinn í ár og ýtt enn frekar undir íbúðaskort, líkt og Samtök iðnaðarins vöruðu ítrekað við í aðdraganda ákvörðunarinnar.

Skortur á lóðum hefur verið stór hindrun í uppbyggingu nýrra íbúða. Í könnuninni segja 67% stjórnenda að skortur á lóðum hafi heft uppbyggingu íbúða hjá fyrirtækjum þeirra á undanförnum árum en 22% segja að svo sé ekki. 

Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.

Ibudir_1738857781241

Ibudir2

Ibudir3

Ibudir4


Morgunblaðið / mbl.is, 7. febrúar 2025.

Viðskiptablaðið, 7. febrúar 2025.