Fréttasafn



10. nóv. 2022 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Aðgerðir til að efla atvinnulíf á Austurlandi

Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, var meðal frummælenda á opnum fundi sem haldinn var á Egilsstöðum með yfirskriftinni Eflum atvinnulíf á Austurlandi. Friðrik kynnti þar starfsemi Samtaka iðnaðarins auk þess sem hann fór yfir þær auknu áherslu sem gerðar eru á skilvirkni og hagkvæmni í íbúðauppbyggingu.

Að fundinum sem haldinn var á Hótel Berayja Héraði stóðu Austurbrú, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Byggðastofnun, Lóa nýsköpunarstyrkur og Samtök iðnaðarins. Á fundinum var fjallað um hvernig atvinna er að þróast á landsbyggðinni, hver staðan er á íbúðamarkaði, lánaúrræði sem standa til boða og eru ætluð til að stuðla að aukinni íbúðauppbyggingu, nýsköpunarstyrkir og fleira.

Í erindi sínu fór Friðrik yfir þær umbætur sem kallað er eftir í stýringu sveitarfélaga á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis þar sem meðal annars þarf að ráðast í samræmingu á rafrænni stjórnsýslu í mannvirkjagerð til að koma í veg fyrir tvískráningu og aukavinnu, samræmingu á túlkun á lögum í byggingareglugerð til að koma í veg fyrir sóun, samræmingu á gjaldskrár sveitarfélaga og framkvæmd gjaldtöku þeirra. Einnig nefndi Friðrik að auka þurfi fjölbreytileika í lóðaframboði sveitarfélaganna til að tryggja hagkvæma uppbyggingu og að stytta þurfi afgreiðsluferli skipulags- og byggingarmála.

Í máli Friðriks kom einnig fram að mikil áhersla væri á grænar lausnir og nýsköpun í byggingar- og mannvirkjaiðnaði og að búa þyrfti til hvata til grænna lausn í húsnæðisuppbyggingu. Komnar eru fram 74 aðgerðir til að stuðla að vistvænni mannvirkjagerð og kynnti Friðrik þær helstu.

Hér er hægt að nálgast glærur Friðriks frá fundinum.

Önnur erindi á fundinum voru:

Svæðisskipulag Austurlands 2022-2044 – Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar

Tryggð byggð – Elmar Erlendsson, teymisstjóri hjá HMS

Lán og framlög HMS til íbúðauppbyggingar – Magnús Þórðu Rúnarsson, sérfræðingur hjá HMS

Lánastarfsemi Byggðastofnunar – Pétur Friðjónsson, sérfræðingur hjá Byggðastofnun

Nýsköpunarstyrkir fyrir landsbyggðina – fulltrúi frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu