Fréttasafn



20. ágú. 2025 Almennar fréttir Efnahagsmál Fréttatilkynning

Aðhaldsstig peningastjórnunar er of hátt að mati SI

Tilkynnt var í morgun að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefði ákveðið að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum. Sú ákvörðun var í samræmi við væntingar, enda hafði nefndin gefið skýr skilaboð fyrir fundinn um að vextir yrðu ekki lækkaðir fyrr en verðbólga færi nær verðbólgumarkmiði Seðlabankans sem er 2,5%. Tónn nefndarinnar varðandi næstu stýrivaxtaaðgerðir hélst einnig óbreyttur en í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar í morgun segir að ljóst sé að frekari skref til lækkunar vaxta sé háð því að verðbólga færist nær 2,5% markmiði bankans. Í ljósi spár bankans um ríflega 4% verðbólgu út árið þykir ólíklegt að stýrivextir verði lækkaðir fyrr en á næsta ári.

Aðhaldsstig peningastjórnunar er of hátt um þessar mundir að mati Samtaka iðnaðarins. Stýrivextir Seðlabankans eru nú 7,5% á meðan verðbólgan mælist 4%. Raunstýrivextir eru því 3,5%, sem er talsvert hærra en í flestum nálægum ríkjum og um tvöfalt það sem þeir hafa verið að jafnaði síðustu tvo áratugi. Samtök iðnaðarins telja stýrivexti óþarflega háa við núverandi aðstæður. Það er mat samtakanna að lægri vextir myndu styðja við verðbólgumarkmið bankans með minni kostnaði fyrir hagkerfið.

Sú skoðun að vextirnir séu of háir hefur haft mikinn hljómgrunn undanfarið. Í könnun meðal aðila á fjármálamarkaði sem gerð var fyrir vaxtaákvörðunina kemur fram að 43% telja að aðhaldsstig peningastefnunnar sé of mikið, þ.e. að stýrivextir séu of háir. Enginn svarandi telur aðhaldið vera of lítið.

Ná má verðbólgumarkmiðinu með minni tilkostnaði

Merki um áhrif aðhaldssamrar peningastefnu sjást víða, ekki síst í iðnaði. Hagvöxtur er hægur og atvinnuleysi vaxandi. Atvinnuleysi mælist nú 3,4% samanborið við 2,8% fyrir tveimur árum. Hægt hefur verulega á fjölgun starfandi og í iðnaði fer þeim fækkandi.

Verðbólgan mælist nú 4% og skýrist 43% af henni af hækkun húsnæðis. Dregið hefur úr hækkun húsnæðisliðar vísitölunnar undanfarið samhliða kólnun á húsnæðismarkaði. Hlutdeild húsnæðisliðarins í verðbólgunni hefur því minnkað en í upphafi árs skýrði hann ríflega helming verðbólgunnar.

Aðhaldið bítur

Áhrif hárra stýrivaxta sjást m.a. í byggingariðnaði. Fjöldi íbúða í byggingu hefur t.d. dregist verulega saman og eru þær nú um 5.500 samkvæmt mælaborði HMS, samanborið við tæplega 9.000 í upphafi árs 2023.

Í nýlegri könnun SI meðal aðila sem byggja í eigin reikning kemur fram að tæplega 86% stjórnenda telja háa vexti hafa dregið úr áformum um íbúðauppbyggingu. Þá segja 81% svarenda að hár fjármögnunarkostnaður myndi draga enn frekar úr uppbyggingu íbúðarhúsnæðis hjá fyrirtækjum þeirra.

Fram undan er því áframhaldandi samdráttur í íbúðum í byggingu ef stýrivextir Seðlabankans haldast áfram jafn háir.

Mikilvægt að ná stöðugleika

Stjórnendur íslenskra iðnfyrirtækja vilja stöðugleika. Í könnun sem gerð var meðal þeirra nú í upphafi árs segja 97% að stöðugleiki skipti miklu máli fyrir rekstur þeirra. Mikil áhersla er á stöðugleika hjá iðnfyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum.

Stöðugleiki er fjölþættur. Háir vextir og verðbólga líkt og nú mælist er ekki sá stöðugleiki sem þarf til að skapa samkeppnishæft starfsumhverfi fyrirtækja. Niðursveifla í efnahagslífinu og samdráttur á íbúðamarkaði sem háir stýrivextir valda er heldur ekki sá stöðugleiki sem stjórnendur iðnfyrirtækja vilja. Sveiflur í starfsumhverfinu skapa óvissu sem dregur úr fjárfestingu og verðmætasköpun. Samtök iðnaðarins telja mikilvægt að hagstjórn taki á þessu.

Miklu skiptir fyrir iðnaðinn líkt og aðra atvinnustarfsemi í landinu að ná meiri stöðugleika. Samtök iðnaðarins telja mikilvægt að peningastefna taki mið af breyttum aðstæðum og raunverulegum áhrifum á atvinnulífið. Of mikið aðhald dregur m.a. úr fjárfestingu og minnkar möguleika á nauðsynlegri uppbyggingu fyrir framtíðar hagvöxt og stöðugleika. Einnig er mikilvægt að opinber fjármál auki stöðugleika með aðhaldi og aðgerðum til að efla framboðshlið hagkerfisins og þannig hafa áhrif á framleiðni. Með þeim hætti skapast gott umhverfi til vaxtar, sérstaklega í greinum sem gegna lykilhlutverki í verðmætasköpun þjóðarbúsins. Þar gegna stýrivextir lykilhlutverki og því skiptir máli að þeir séu í samræmi við efnahagslegar aðstæður.



Vísir/Bylgjan, 20. ágúst 2025.

RÚV, 20. ágúst 2025.

Innherji, 21. ágúst 2025.

mbl.is, 21. ágúst 2025.

Morgunblaðið, 21. ágúst 2025.

Morgunbladid-21-08-2025