Fréttasafn



24. jan. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Aðsókn að íslenskum kvikmyndum minnkar milli ára

Í Morgunblaðinu er rætt við Kristinn Þórðarson, formann Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, um aðsókn að íslenskum kvikmyndum á síðasta ári en heildartekjur af íslenskum kvikmyndum drógust saman um 68% frá árinu á undan, tekjurnar í fyrra námu alls 76 milljónum króna en þær voru 240 milljónir árið 2018. 54 þúsund manns sáu íslenskar myndir í kvikmyndahúsum í fyrra í samanburði við 164 þúsund árið 2018. 

Kristinn  bendir á að þrátt fyrir að árið 2019 teljist dapurt hafi um 12 þúsund manns séð kvikmyndina Agnesi Joy. Það sé næstum því 5% af þjóðinni og slíkt hlutfall myndi teljast ærið gott í Bandaríkjunum. „Við stefnum alltaf hærra en lógíkin gerir ráð fyrir.“ Í fréttinni kemur fram að nokkur dæmi séu um íslenskar myndir sem fengið hafa um fimmtíu þúsund áhorfendur eða 15% þjóðarinnar, 60 þúsund manns sáu Svartur á leik, 53 þúsund manns sáu Lof mér að falla, 35 þúsund sáu Víti í Vestmannaeyjum, 24 þúsund manns sáu Lói – þú flýgur aldrei einn og 20 þúsund manns sáu Kona fer í stríð.

Þá segir í fréttinni að á síðasta ári hafi 16 íslenskar kvikmyndir verið sýndar í kvikmyndahúsum sem sé sami fjöldi og árið 2018. „Þetta er alltaf sveiflukennt milli ára en maður er aldrei ánægður eftir svona ár. Auðvitað er þetta rætt meðal kvikmyndagerðarmanna og auðvitað fylgjumst við með. En þetta er ekki fyrsta árið sem er hræðilegt, 2015 var það líka. Ég hef engar stórar áhyggjur í augnablikinu en ef það koma fimm svona ár í röð þá mun ég hafa áhyggjur. Núna höldum við bara áfram að gera gott efni og það er vonandi að Íslendingar taki við sér og fari að mæta í bíó.“

Morgunblaðið, 23. janúar 2020.