Fréttasafn



29. sep. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Áframhaldandi samdráttur íbúða í byggingu

Í nýrri greiningu SI um talningu samtakanna á íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu, í nágrenni þess og á Norðurlandi kemur fram að samdráttur mælist enn í fjölda íbúða í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og hefur þeim fækkað samfellt frá því í mars 2019. Nú eru 3.387 íbúðir í byggingu samkvæmt talningu SI og hafa ekki verið færri íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu á fimmta ár eða síðan í mars 2017. Mælist samdrátturinn um 18% frá talningu SI á sama tíma í fyrra þegar íbúðir í byggingu voru 4.127 talsins.

Aðrar niðurstöður íbúðartalningar SI eru þessar helstar:

Ríflega 75% íbúða í byggingu á höfuðborgarsvæðinu eru innan Reykjavíkur og Kópavogs. Í Reykjavík eru nú 1.898 íbúðir í byggingu og nemur samdrátturinn á milli ára 24%, eða um 601 íbúð. Í Kópavogi eru nú 646 íbúðir í byggingu samanborið við 721 í september 2020. Samdrátturinn á milli ára mælist þar ríflega 10%.

Íbúðum á fyrstu byggingarstigum, þ.e fram að fokheldu, tók að fækka á árinu 2018 og voru þær sögulega fáar á árinu 2020. Afleiðing þess er að nú eru mjög fáar íbúðir á seinni byggingarstigum. Íbúðum sem eru tilbúnar til innréttinga fækkar umtalsvert á milli ára. Nemur samdrátturinn 29% og eru nú 1.330 íbúðir í byggingu samanborið við 1.874 á síðasta ári. Fullgerðum íbúðum fækkar á milli ára úr 1.097 íbúðum í 353 eða 68%. Mikil sala hefur verið á íbúðum sem skýrir að hluta fækkunina á fullbúnum íbúðum. Mikið af þeim íbúðum sem eru nú á síðustu byggingastigum í talningunni eru raunar seldar en íbúð er talin með þar til flutt er inn í hana. Framboð fullbúinna íbúða er því minna en talningin ber með sér.

Á höfuðborgarsvæðinu eru 1.704 íbúðir í byggingu að fokheldu og eykst fjöldi þeirra um ríflega 47% eða um 548 íbúðir á milli ára. Verður það að teljast jákvætt þar sem íbúðum í byggingu að fokheldu hefur farið fækkandi á milli talninga síðustu 2 ár.

Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins eru nú 1.088 íbúðir í byggingu og fjölgar þeim nokkuð frá sama tíma í fyrra. Í september 2020 voru 819 íbúðir í byggingu í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og nemur fjölgunin því 269 íbúðum eða 33% á milli ára.

Stærstan hluta aukningarinnar í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins má rekja til fjölgunar íbúða á fyrstu byggingarstigum, eða til íbúða í byggingu að fokheldu. Nú eru 647 íbúðir í byggingu að fokheldu í nágrenni höfuðborgarsvæðisins samanborið við 330 fyrir ári síðan. Líkt og á höfuðborgarsvæðinu fækkar fullgerðum íbúðum í byggingu í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins nokkuð frá september-talningunni 2020.

Á Norðurlandi eru 274 íbúðir í byggingu. Á undanförnum mánuðum virðast umsvif í byggingu íbúða á þessu svæði hafa aukist þar sem 218 íbúðir voru í byggingu í mars á þessu ári. Heildarfjölgun íbúða í byggingu frá mars nemur 56 íbúðum eða 26%.

Á höfuðborgarsvæðinu áætla SI að 1.646 íbúðir fari á markaði árið 2022 og 1.764 íbúðir árið 2023. Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins er svo gert ráð fyrir 425 fullbúnum íbúðum á markað árið 2022 og 575 íbúðum 2023. Heildarfjölda íbúða sem spáð er að komi á markað á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess á árinu 2022 fjölgar því lítillega frá samskonar spá SI í september 2020 þegar áætlað var að 1.923 fullbúnar íbúðir kæmu á markað árið 2022.

Hér er hægt að nálgast greiningu SI.


Ibudatalning-mars-2010-sept2021


Morgunblaðið, 29. september 2021.


Vísir, 29. september 2021.

Viðskiptablaðið , 29. september 2021.

RÚV, 29. september 2021.

Morgunblaðið, 30. september 2021.

Bylgjan, 30. september 2021.