Ákvörðun ESB kallar á aukna hagsmunagæslu fyrir Ísland
Samtök iðnaðarins (SI) lýsa yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun Evrópusambandsins (ESB) um verndaraðgerðir vegna kísiljárns þar sem Ísland og Noregur eru ekki undanskilin.
Verðum að bregðast við af fullum þunga
Unnið hefur verið ötullega að hagsmunagæslu Íslands á undanförnum mánuðum af hálfu íslenskra stjórnvalda, þingmanna, fyrirtækja og Samtaka iðnaðarins. Hagsmunagæslunni er þó hvergi nærri lokið og vænta SI þess að íslensk stjórnvöld bregðist við með markvissum hætti. Þessi ákvörðun ESB getur haft neikvæð áhrif á útflutningstekjur Íslands til viðbótar við þau áföll sem hafa dunið yfir að undanförnu.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI: „Þetta eru mikil vonbrigði, sem íslensk stjórnvöld, iðnaður og atvinnulífið í heild sinni verða að bregðast við af fullum þunga. EES-samningurinn er mikilvægasti viðskiptasamningur Íslands, fyrir íslenskan iðnað og allt atvinnulífið, enda er evrópumarkaður stærsti markaðurinn fyrir íslenskar vörur. Það er brýnt að koma í veg fyrir að þetta mál skapi fordæmi fyrir aðrar atvinnugreinar og vöruflokka. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu er full ástæða til að hrósa íslenskum stjórnvöldum fyrir öfluga hagsmunagæslu. Hagsmunagæsla Íslands og Noregs hefur náð að hreyfa við aðildarríkjum ESB. Ákvörðuninni var ítrekað frestað sem sýnir að við höfum stuðning við okkar sjónarmið.“
EES-samningurinn mikilvægasti viðskiptasamningur Íslands
Evrópa er stærsti markaðurinn fyrir íslenskar vörur og EES-samningurinn er mikilvægasti viðskiptasamningur sem Ísland á aðild að enda hefur hann tryggt fullan aðgang að innri markaði Evrópu. Með EES-samningnum gengst íslenskt atvinnulíf undir regluverk sem í mörgum tilvikum telst íþyngjandi og kostnaðarsamt. Það er að mati SI algjörlega óboðlegt að Ísland beri kostnað af regluverkinu en á sama tíma séu settar verndarráðstafanir á kísiljárn sem takmarka aðgengi að innri markaði samkvæmt EES-samningnum. Það er því full ástæða til að setja aukinn kraft í íslenska hagsmunagæslu af hálfu íslenskra stjórnvalda, Alþingis, iðnaðar og atvinnulífs.

