Ákvörðun kemur á óvart og gæti dregið úr íbúðauppbyggingu
Sigurður Hannesson, framvæmdastjóri SI, segir í frétt Vísis að ákvörðun fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans hafi komið á óvart en tilkynnt var að breyta ætti lánþegaskilyrðum sem geri það að verkum að við útreikning á greiðslubyrði verði litið til allra greiðslna sem falla til hjá einstaklingum við öflun íbúðarhúsnæðis, þar á meðal greiðslna vegna afnota tengdum fyrirkomulagi íbúðakaupa jafnvel þótt þeim sé frestað. „Í fyrsta lagi vill Seðlabankinni ná fram harðri lendingu á fasteignamarkaðnum og ná fram verðstöðugleika í gegnum það. Honum finnst verðið vera of hátt og vill ná fram leiðréttingu þar. Hins vegar veit maður svo sem ekki hvað þetta mun hafa mikil áhrif, þau benda líka á það að nefndin hafi aukið svigrúm bankanna til þess að fara umfram mörkin. Þannig að það gæti vel verið að sú heimild verði nýtt í meiri mæli en áður.“
Þess má geta að í gær birtist grein formanns VR og framkvæmdastjóra SI á Vísi þar sem þau hvetja Seðlabankann til að slaka á lánþegaskilyrðum.
Sigurður segir í frétt Vísis að það verði mjög áhugavert að sjá hvernig markaðurinn bregðist við ákvörðun fjármálastöðugleikanefndar. Hann telji líkur á því að hún muni draga enn frekar úr uppbyggingu nýrra íbúða. „Maður veltir líka fyrir sér hvort þetta geti haft áhrif til lækkunar lóðaverðs. Ef það gerist þá eru það heilmikil tíðindi fyrir sveitarfélög, sem hafa í meiri mæli reitt sig á tekjur af lóðasölu og innheimtu á ýmsum gjöldum í tengslum við uppbyggingu.“
Í lok fréttar Vísis segir Sigurður að hægt sé að kjarna stöðu mála í einu orði: störukeppni. „Ríkið er að bíða eftir sveitarfélögunum, Seðlabankinn er að bíða eftir ríkinu og svo framvegis. Þetta er flókið, það þarf að gera margt í einu og leiða marga ólíka aðila saman. Hver og einn þeirra hefur kannski ekki hag af því að hreyfa sig eða breyta neinu, þó að heildin hafi mikinn hag af því að það verði breytingar. Ef ég man rétt þá er þetta kallað harmur heildarinnar í hagfræðinni.“
Hér er hægt að lesa fréttina í heild sinni.
Vísir, 3. desember 2025.

