Fréttasafn



1. okt. 2021 Almennar fréttir Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Allir flokkar á þingi áforma að skapa græna fjárhagslega hvata

Allir átta flokkarnir sem hlutu kosningu til Alþingis áforma að skapa fjárhagslega hvata til að stuðla að umhverfisvænum breytingum hjá fyrirtækjum. Þetta kemur fram í könnun Samtaka iðnaðarins meðal þeirra flokka sem tóku þátt í kosningafundi SI. Átta flokkar svöruðu spurningunum en Sósíalistaflokkurinn sem ekki komst á þing svaraði ekki. Flokkarnir sem svöruðu eru Flokkur fólksins, Framsókn, Miðflokkurinn, Samfylking, Sjálfstæðisflokkur, Píratar, VG og Viðreisn. Hér er hægt að nálgast niðurstöður könnunarinnar.

Svarmöguleikar í könnunni voru þrír: JÁ - grænn litur. NEI - rauður litur. VIL EKKI SVARA - gulur litur.

Svor-Orka-og-umhverfi

1. Breyta tilgangi og markmiðum Loftslagssjóðs þannig að sjóðurinn fjármagni umbreytingu í atvinnulífi sem dregur úr losun?

2. Tryggja að tekjur vegna sölu á losunarheimildum renni óskiptar til atvinnulífs í gegnum Loftslagssjóð?

3. Skapa fjárhagslega hvata, s.s. styrki, ívilnanir eða annan stuðning, til að stuðla að umhverfisvænum breytingum hjá fyrirtækjum?

4. Draga úr flækjustigi í stjórnsýslu vegna uppbyggingar í raforkukerfinu hvað varðar leyfisveitingar og umhverfismat?

5. Ryðja úr vegi lagalegum hindrunum þannig að fyrirtækjum verði gert kleift að framleiða raforku úr auðlindastraumum í starfsemi sinni og selja inn á almennan markað?

6. Á að mæta atvinnuuppbyggingu, grænni nýsköpun og orkuskiptum með aukinni orkuöflun?

7. Stuðla að innviðauppbyggingu, s.s. brennslustöðvar, til að takast á við áskoranir vegna þess úrgangs sem ekki unnt er að endurvinna og/eða -nýta?

Grænir hvatar eru hornsteinn umhverfisvænna breytinga

Samtök iðnaðarins fagna þessari skýru afstöðu flokkanna enda telja samtökin leiðina að minni losun gróðurhúsalofttegunda eitt af mikilvægustu verkefnum samtímans. Óumdeilt er að árangri í loftslagsmálum verður ekki náð án tækniþróunar, nýsköpunar, hönnunar og umhverfisvænna lausna. Ekkert af þessu nær flugi nema atvinnulífið hafi borð fyrir báru til grænna fjárfestinga og stjórnvöld stígi í takt og greiði leið grænna lausna með skattalegum ívilnunum, fjárfestingum, skilvirku styrkjaumhverfi og öðrum fjárhagslegum hvötum til að örva græna umbyltingu, samfélaginu öllu til heilla.

Í könnuninni kemur fram að meirihluti þeirra flokka sem svöruðu spurningum um orku og umhverfi styður helstu áherslumál Samtaka iðnaðarins á þessu sviði, s.s. hvað varðar uppbyggingu í raforkukerfinu, græna nýsköpun, draga úr flækjustigi í stjórnsýslu og úrbætur í innviðauppbyggingu úrgangsmála.

Dýpka þarf skilning á hlutverki Loftslagssjóðs

Niðurstöður könnunarinnar sýnir hins vegar að flokkarnir hafa mismunandi sýn á Loftslagssjóð því sumir flokkar annaðhvort vilja ekki svara eða leggjast gegn því að Loftslagssjóði verði gert að starfa í samræmi við það alþjóðlega regluverk sem hann grundvallast á, þ.e. að fjármagna umhverfisvæna tækni í þeim tilgangi að styðja við aðgerðir atvinnulífs til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í stað almennrar tekjuöflunar ríkisins. Til upplýsingar má í þessu samhengi benda á að samkvæmt úttekt framkvæmdastjórnar ESB frá árinu 2017 var á tímabilinu 2013-2015 82% tekna af sölu ETS heimilda úthlutað til verkefna á sviði umhverfis- og orkumála.

Atvinnulífið er lykillinn að markmiðum í umhverfismálum

Metnaðarfullum markmiðum stjórnmálaflokka á sviði umhverfis- og loftslagsmála verður einungis náð með nánu samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda þar sem efla þarf til muna nýsköpun og grænar fjárfestingar. Til að svo verði þarf því að ýta undir slíka framþróun með jákvæðum hvötum í stað þess að einblína alfarið á boð og bönn. Lausnirnar verða til hjá atvinnulífinu en á sama tíma þurfa stjórnvöld að ryðja hindrunum úr vegi, hlúa að starfsskilyrðum og fjárhagslegum hvötum. Vandinn er þekktur og Samtök iðnaðarins telja því ekkert að vanbúnaði að hraða ferlinu til að ná þeim árangri í loftslagsmálum sem að er stefnt.