Fréttasafn28. sep. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Allir flokkar á þingi vilja auka innviðafjárfestingar

Allir átta flokkarnir sem hlutu kosningu til Alþingis áforma að auka fjárfestingar í efnislegum innviðum landsins þannig að staða þeirra verði góð. Þetta kemur fram í könnun sem Samtök iðnaðarins gerðu meðal þeirra flokka sem tóku þátt í kosningafundi SI. Átta flokkar svöruðu spurningunum en Sósíalistaflokkurinn sem ekki komst á þing svaraði ekki. Flokkarnir sem svöruðu eru Flokkur fólksins, Framsókn, Miðflokkurinn, Samfylking, Sjálfstæðisflokkur, Píratar, VG og Viðreisn. Hér er hægt að nálgast niðurstöður könnunarinnar.

Að mati Samtaka iðnaðarins eru þetta jákvæð tíðindi. Innviðir leggja grunn að verðmætasköpun og daglegt líf er óhugsandi án traustra innviða. Góð staða á innviðum gerir fyrirtækjum kleift að skapa verðmæti og auka möguleika almennings til atvinnu og bættra lífsgæða.

Svarmöguleikar voru þrír: JÁ - grænn litur. NEI - rauður litur. VIL EKKI SVARA - gulur litur.

Svor-Innvidir_1632309190550

  1. Breyta samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti í eitt innviðaráðuneyti með því að sameina samgöngu-, skipulags-, húsnæðis- og byggingamál?
  2. Auka fjárfestingar í efnislegum innviðum landsins þannig að staða þeirra verði góð?
  3. Nýta samvinnuleið hins opinbera og einkaaðila við uppbyggingu innviða og flýta þannig þjóðhagslega arðbærri fjárfestingu?
  4. Framlengja átakið „Allir vinna“?
  5. Koma í framkvæmd tillögum átakshóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins vegna uppbyggingar íbúðarhúsnæðis sem lagðar voru fram 2019 sem og að innleiða umbætur sem OECD lagði til?
  6. Endurskoða lagaumhverfi skipulagsmála til skilvirkari uppbyggingar íbúðarhúsnæðis?  

Innviðir ekki í góðri stöðu

Ónóg fjárfesting í innviðum hér á landi hefur valdið því að ástand þeirra er víða óviðunandi. Staða innviða hér á landi er metið í skýrslu sem Samtök iðnaðarins gáfu út í samvinnu við Félag ráðgjafarverkfræðinga fyrr á þessu ári. Að meðaltali fá innviðir ástandseinkunnina 3 en einkunnagjöfin er á bilinu 1 til 5 þar sem 1 er lægsta einkunn og 5 sú hæsta. Miðað við þessa einkunn er staða innviða að meðaltali viðunandi en ekki góð.

Ástand einstakra þátta innviða er mismunandi. Verst er ástand vegakerfis og fráveitna. Þessir innviðir fá ástandseinkunnina 2 sem merkir að innviðurinn er í slæmu ásigkomulagi. Einkunnin segir að tafalausra viðbragða sé þörf. Viðhaldi innviða hefur verið ábótavant á þessum sviðum. Víða um land eru hættulegir vegkaflar svo dæmi sé tekið og á höfuðborgarsvæðinu er þörf á því að bæta samgöngur talsvert. Þá er stór hluti fráveitukerfisins yfir 50 ára gamall og er afkastageta þess víða ófullnægjandi.

Uppsöfnuð viðhaldsþörf umtalsverð

Í skýrslunni kemur fram að 420 ma.kr. þurfi til að ná efnislegum innviðum landsins í gott ástand, þ.e. ástandseinkunn 4. Tæplega 57% af þessum kostnaði er vegna þeirra innviða sem fá ástandseinkunnina 2, þ.e. þeirra sem eru í versta ástandinu. Talið er að það þurfi 160-180 ma.kr. til að gera ástand vegakerfisins gott og 50-85 ma.kr. til þess að koma fráveitukerfinu í gott ástand.