Fréttasafn



5. nóv. 2025 Almennar fréttir

Allir sammála um að verðbólgan væri lægri með gömlu aðferðinni

Í frétt Viðskiptablaðsins segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, að það beri öllum saman um að ársverðbólga hefði mælst lægri um þessar mundir ef áfram hefði verið stuðst við gömlu aðferðina. Hann telur tímasetninguna á innleiðingu nýrrar aðferðafræði við mælingu á húsnæðisliðnum í vísitölu neysluverðs fyrir rúmu ári síðan hafa verið mistök. 

Í frétt Viðskiptablaðsins kemur fram að Hagstofan hafi í júní 2024 tekið upp aðferð húsaleiguígilda í stað  einfalds notendakostnaðar við útreikning á reiknaðri húsaleigu í vísitölu neysluverðs. Þar kemur fram að Hagstofan hafi birt færslu á Facebook þar sem sagt er að fullyrðing um að ársverðbólga væri 3,3% með óbreyttri aðferð standist ekki. Þar er vísað til orða Sigurðar í Silfrinu á RÚV um að verðbólga væri sennilega í kringum 3,3%, en ekki 4,3% ef áfram hefði verið stuðst við gömlu aðferðina.

Þegar Viðskiptablaðið spyr Sigurð um viðbrögð við færslu Hagstofunnar segir hann að stofnunin hafi í reynd staðfest að verðbólgan væri lægri ef miðað er við gömlu aðferðafræðina.„Okkur finnst bara mjög gott að sjá það virðast allir sem hafa tjáð sig um þetta í dag vera sammála um að verðbólgan væri lægri með gömlu aðferðinni, hvort sem það er Hagstofan, greiningardeild Íslandsbanka eða aðrir. Það er mjög ánægjulegt að fá það staðfest.“ 

Stóra málið að tímasetning á breyttir aðferðarfræði var misráðin

Í Viðskiptablaðinu segir Sigurður að stóra málið sé að það hafi verið fyrirséð að tímasetningin við það að taka upp breytta aðferðarfræði við mælingu á reiknaðri húsaleigu myndi leiða til þessa munar á verðbólgumælingunni. „Þess vegna vekur það upp svona hörð viðbrögð þegar við hjá SI bendum á þetta vegna þess að þeir sem stóðu að breytingunni vita að tímasetningin var misráðin.“ Breytingin hafi fyrstu mánuðina haft áhrif til lækkunar á verðbólgunni en svo hafi áhrifin þróast á verri veg, í ljósi þess að leiguverð hefur hækkað meira en íbúðaverð upp á síðkastið. „Til lengri tíma litið þá jafnast þetta út en við erum auðvitað bara í viðkvæmri stöðu núna. Það er mikil verðbólga, vextir eru háir en hagkerfið er að kólna. Það eru liggur við fréttir vikulega af uppsögnum eða af þrengingum hjá fyrirtækjum. Það er ágætur mælikvarði á stöðuna um þessar mundir.“ 

Viðskiptablaðið, 4. nóvember 2025.

Staðfest að verðbólgan væri lægri

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í frétt RÚV að það mikilvægasta sem komið hafi fram í umræðunni um verðbólgumælingar sé að allir aðilar séu sammála um að verðbólga væri að mælast lægri ef notast væri við eldri aðferðir Hagstofunnar. „Við fögnum því að þessir aðilar hafi stigið fram og staðfest það að verðbólgan væri lægri ef við værum enn þá að styðjast við gömlu aðferðina.“ Í frétt RÚV kemur fram að Sigurður bendi á að bæði Hagstofan og Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur Íslandsbanka, beri saman um að verðbólga væri að minnsta kosti eilítið lægri ef stuðst væri við eldri aðferð Hagstofunnar við verðbólgumælingar. „Það er það sem skiptir mestu máli í þessu og er mjög áhugavert fyrir fólkið í landinu að heyra það.“

Sigurður segir jafnframt í frétt RÚV að vitað hafi verið þegar breytingar Hagstofunnar voru gerðar að sú staða gæti komið upp að leiguverð myndi hækka meira en eignarverð. „Og sú staða er einfaldlega uppi núna, þannig ég held að það sé ekkert óvænt í því og ég held að Hagstofunni hafi verið það fulljóst þegar þessi breyting varð. Kannski var tímasetningin á breytingunni í fyrra misráðin.“ 

RÚV, 4. nóvember 2025.