Fréttasafn



23. apr. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Mannvirki

Allir sitji við sama borð í afgreiðslu sveitarfélaga

Nýsköpun og framleiðnivöxtur eru best tryggð þar sem samkeppnin er sem mest. Með slíku fyrirkomulagi má best tryggja hagkvæmni og skilvirkni í byggingariðnaði til heilla fyrir íbúðakaupendur. Með því að gefa sem flestum tækifæri til að leggja sitt til lausnar vandans – og þá auðvitað að allir fái að sitja við sama borð þegar kemur að afgreiðslu hjá sveitarfélögunum – má byggja þær hagkvæmu íbúðir sem markaðurinn kallar eftir. Þannig verður vandinn leystur og um leið stuðlað að efnahagslegum sem og félagslegum stöðugleika. Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í grein sinni sem birtist í nýjasta tölublaði ViðskiptaMogganum undir yfirskriftinni Fleiri hagkvæmar íbúðir. Hann segir að ábyrgðin á húsnæðisvanda tekju- og eignalágra liggi að miklu leyti hjá skipulagsyfirvöldum, þ.e. sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu enda hafi þau mikið um það að segja hvað er byggt og hvar. Í því sambandi segir hann að stefna stærsta sveitarfélagsins á höfuðborgarsvæðinu hafi verið sérstaklega áberandi en af öllum íbúðum í byggingu í Reykjavík sé ríflega þriðjungur í póstnúmeri 101, þ.e. á svæði þar sem verð á nýjum íbúðum er um 46% hærra en á íbúðum í póstnúmerum utan þéttingarreita. Um 20% Reykvíkinga eldri en 25 ára eigi ekki sitt eigið húsnæði og séu ríflega 16% Reykvíkinga í leiguhúsnæði. Hópurinn sé því stór sem sökum fjárhagslegrar stöðu sinnar finnur sig tilneyddan að nýta það húsnæðisúrræði. Þá fjölgi þeim á aldrinum 20-29 ára sem búi enn í foreldrahúsum.

Efla á framboðshlið en ekki eftirspurnarhlið

Þá segir Ingólfur að nýframkomnar hugmyndir um aðkomu stjórnvalda að lausn vanda tekju- og eignalágra á íbúðamarkaði snúi fyrst og fremst að því að efla eftirspurnarhlið markaðarins en mun minni áhersla sé á aukið framboð íbúða á svæðum þar sem íbúðaverð sé lægra en gengur og gerist miðsvæðis í höfuðborginni. Þetta sé hættuleg blanda en aukin eftirspurn á tíma þegar framboð sé takmarkað kalli á verðhækkun umfram hækkun launa. Hann segir að aðgerðirnar gætu misst marks nema ráðist sé að rót vandans og framboð aukið.

Hér er hægt að lesa grein Ingólfs í heild sinni.