Alþingi styður við áframhaldandi vöxt í hugverkaiðnaði
Hugverkaiðnaður er sú stoð útflutnings sem vex hraðast og gæti orðið verðmætasta stoð útflutnings við lok þessa áratugar. Þetta má meðal annars þakka því hversu hagfellt nýsköpunarumhverfið á Íslandi hefur verið en stjórnvöld hafa hvatt til nýsköpunar, rannsókna og þróunar undanfarin ár. Samtök iðnaðarins fagna því að svo verði áfram en Alþingi samþykkti í gær að viðhalda stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki og gera varanlegt ákvæði um frádráttarbæran kostnað sem gilt hefur sem bráðabirgðaákvæði undanfarin ár. Skattfrádrátturinn verður áfram 35% fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og 25% fyrir stór fyrirtæki. Þak á frádráttarbærum kostnaði verður áfram 1,1 milljarður króna.
Samþykkt frumvarpsins var eitt af síðustu málum þessa þings sem lauk í gær. Samtök iðnaðarins fagna sem fyrr segir þessu mikilvæga skrefi enda eykur það fyrirsjáanleika fyrir fyrirtæki í hugverkaiðnaði og festir í sessi framúskarandi starfsumhverfi hugverkaiðnaðar.