Fréttasafn20. apr. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Alvarleg staða í kvikmyndaiðnaði kallar á aðgerðir

Rætt er við Kristinn Þórðarson, formann Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, í helgarútgáfu Fréttablaðsins um alvarlega stöðu kvikmyndaiðnaðarins hér á landi. Í skrifum Björns Þorfinnssonar, blaðamanns, segir að eins og margar aðrar atvinnugreinar hérlendis hafi kvikmyndagerð orðið illa úti vegna faraldursins sem geisi um heimsbyggðina. Framleiðsla og þróun fjölmargra verkefna hafi stöðvast og þar af leiðandi tekjustreymi. Ef ekkert sé að gert sé staðan grafalvarleg fyrir iðnaðinn. 

Í fréttinni kemur fram að í könnun sem Félag kvikmyndagerðarmanna hafi gert meðal sinna félagsmanna komi fram að um 60% kvikmyndaframleiðenda hérlendis telji sig ekki geta haldið starfi sínu gangandi lengur en í mánuð vegna skyndilegs tekjumissis. Hagsmunaaðilar hafi því sent ráðherrum tillögur í nokkrum liðum um nauðsynlegar aðgerðir til að bregðast við þessum tímabundna vanda. Þær felist meðal annars í því að tryggja afkomu verktaka í greininni, styrkja handritagerð og þróun verkefna, hlaupa fjárhagslega undir bagga með þeim verkefnum sem voru langt komin þegar faraldurinn hófst, endurgreiða virðisaukaskatt vegna sýninga í VOD-kerfum og ekki síst hækka endur­greiðsluhlutfall vegna verkefna í kvikmyndagerð. 

Með aðgerðum skapast mikil tækifæri

„Til skamms tíma þá er staðan erfið en við teljum að með þessum aðgerðum skapist mikil tækifæri,“ segir Kristinn í fréttinni og er sannfærður um að kvikmyndagerð geti leikið stórt hlutverk í efnahagslegri upprisu Íslands eftir að COVID-19 faraldurinn er yfirstaðinn, þar skipti miklu máli að hækka endurgreiðslur ríkisins til kvikmyndagerðar en lagt er til að endurgreiðslan verði 35% næstu 18 mánuði. „Sú aðgerð kostar ríkissjóð ekki krónu en gæti hjálpað til að fá stór verkefni til landsins,“ segir Kristinn en slík verkefni skipti þjóðarbúið gríðarlegu máli. „Það er óvíst hvenær ferðamannastraumurinn til landsins kemst í samt horf. Þá geta stór erlend kvikmyndaverkefni fyllt upp í ákveðið tómarúm.“ 

Ráðast þarf hratt í aðgerðir

Þá segir Kristinn í fréttinni að miklar líkur séu á því að stórir erlendir framleiðendur muni horfa hýru auga til Íslands. „Við höfum staðið okkur vel í baráttunni gegn faraldrinum og hér er endalaus víðátta sem veitir ákveðið öryggi. Ekki skemmir fyrir að kvikmyndagerðarfólk eyðir miklum peningum á meðan verkefni eru í vinnslu. Þetta eru yfirleitt stórir hópar sem dveljast lengi á landinu og eyða háum upphæðum í gistingu, uppihald og leigu á margs konar búnaði. Auglýsingagildi þessara verkefna er því mikið og verkefnin halda áfram að gefa af sér eftir að upptökum er lokið.“ 

Kristinn segir að viðbrögð ráðamanna hafi einkennst af jákvæðni og áhuga en tíminn sé af skornum skammti. „Þessar aðgerðir þarf að ráðast hratt í. Bæði aðgerðir til þess að hjálpa þeim sem starfa í þessum geira sem og að koma fljótt út skilaboðum um hækkaða endurgreiðslu. Þannig getum við barist til að fá þessi stóru verkefni til landsins.“ 

Á vef Fréttablaðsins er hægt að nálgast fréttina.