Fréttasafn



16. maí 2022 Almennar fréttir Félag ráðgjafarverkfræðinga Innviðir Mannvirki

Ánægja með samtöl stjórnar FRV við opinbera verkkaupa

Aðalfundur Félags ráðgjafaverkfræðinga fór fram í dag í Húsi atvinnulífsins. Á aðalfundinum fór Reynir Sævarsson, formaður félagsins, yfir niðurstöður samtala stjórnar við opinbera verkkaupa sem hafa staðið yfir í vetur og stendur til að halda þeim áfram næsta haust. Reynir kvað samtölin hafa verið ánægjuleg og veitt bæði stjórn félagsins og fulltrúum opinberu verkkaupanna betri innsýn inn í nálgun þeirra til hinna ýmsu málefna sem brenni á stjórn félagsins. Helstu atriði samtalanna hafa snúið að umfangi innhýsingar á verkfræðistörfum, framkvæmdar útboða og rammasamninga, starfsábyrgðatryggingum og kröfum á ráðgjafa í þeim efnum, gæði kostnaðaráætlana o.fl. Þá hafi einnig verið komið inn á þau atriði sem almennt megi betur fara í störfum ráðgjafa sem og í störfum opinberu verkkaupanna. Fundarmenn lýstu yfir ánægju með framtak stjórnar í þessum efnum og hvöttu hana áfram til frekara samtals við opinbera verkkaupa á þessum nótum.

Að lokinni kynningu Reynis Sævarssonar tók Bjartmar Steinn Guðjónsson við fundarstjórn og var Kristján Daníel Sigurbergsson kosinn fundarritari fundarins, báðir viðskiptastjórar á mannvirkjasviði SI. Reynir Sævarsson fór þá yfir skýrslu stjórnar vegna síðasta starfsárs þar sem farið var yfir helstu áherslumál og verkefni félagsins. Fundarstjóri fór því næst yfir efni ársreiknings félagsins fyrir árið 2021 auk áætlunar um tekjur og gjöld félagsins á árinu 2022.

Kosið var til tveggja sæta í stjórn félagsins til tveggja ára. Í framboði voru Guðjón Jónsson hjá VSÓ ráðgjöf og Haukur J. Eiríksson hjá Hniti, báðir núverandi stjórnarmenn félagsins. Engin frekari framboð bárust fyrir fundinn og voru þeir þ.a.l. báðir sjálfkjörnir til áframhaldandi stjórnarstarfa. Fyrir í stjórn félagsins, kosin á aðalfundi ársins 2021 til tveggja ára, eru Reynir Sævarsson hjá Eflu, formaður, Hjörtur Sigurðsson hjá VSB verkfræðistofu og Ólöf Helgadóttir hjá Lotu.

Á myndinni hér fyrir ofan er Reynir Sævarsson, formaður Félags ráðgjafarverkfræðinga.