Arkitektar og kanarífuglinn í kolanámunni
Uppsagnir og hagræðingar eiga sér nú þegar stað hjá arkitektastofum en þær eru fremstar í verkröðuninni í byggingar- og mannvirkjaiðnaði og þannig forboði þess sem koma skal í greininni nema eitthvað breytist. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í Viðskiptablaðinu í dag og vísar til þess að það sé líkt og kanarífuglinn í kolanámunni. Þá segir hann að þó talsverðar framkvæmdir séu fyrirhugaðar hefur stórum verkefnum verið frestað, það hægi á vexti í byggingariðnaði sem gæti leitt til samdráttar. Það sé því bæði nauðsynlegt og skynsamlegt að ráðast í innviðaframkvæmdir nú þegar dregur úr vexti hagkerfisins en því er spáð að hagvöxtur í ár verði um 1-2% og sé það minnsti hagvöxtur sem mælst hefur í landinu síðan 2012. Þá sé atvinnuleysi þegar farið að aukast en atvinnuleysi í janúar síðastliðnum mældist 3,0% samanborið við 2,4% í sama mánuði í fyrra.
Innviðaframkvæmdir milda niðursveifluna og byggir undir hagvöxt til lengri tíma
Í greininni segir Sigurður jafnframt að Samtök iðnaðarins hafi bent á að við þessar aðstæður sé kjörið að fara í innviðaframkvæmdir en með því er bæði milduð niðursveiflan í hagkerfinu og byggt undir hagvöxt til lengri tíma. Sterkir innviðir, eins og samgöngur, sé forsenda öflugs atvinnulífs. Óstöðugleiki í hagkerfinu sem birst hefur m.a. í miklum sveiflum í fjárfestingum í hagkerfinu og bygginga- og mannvirkjaiðnaði sé til þess fallinn að draga úr framleiðni og langtíma hagvexti. Fjárfestingar hafi verið litlar í hagkerfinu lengi fram eftir efnahagsuppsveiflunni 2011-2018 og það hafi ekki verið fyrr en 2016 sem fjárfestingarstigið í hagkerfinu var komið á viðunandi stað eða nálægt því sem sjá má að meðaltali í iðnvæddum ríkjum og telja má að þurfi til að viðhalda hagvexti til lengri tíma. Talsverð umsvif séu núna í bygginga- og mannvirkjaiðnaði en hafa ber í huga að þær framkvæmdir sem fyrirtæki í greininni eru nú að fást við eigi sér langan aðdraganda.
Hér er hægt að lesa grein Sigurðar sem ber yfirskriftina Kjöraðstæður fyrir innviðaframkvæmdir.