Fréttasafn



29. maí 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Arkitektar vilja endurskoðun á rammasamningi Ríkiskaupa

Samtök arkitektastofa, SAMARK, hafa sent erindi til Ríkiskaupa þar sem óskað er eftir að rammasamningur um umhverfis-, skipulags- og byggingarmál verði endurskoðaður. Í erindinu kemur fram að það sé fyrirsjáanlegt, vegna yfirlýstra aðgerða stjórnvalda og sveitarfélaga, að á næstunni verði farið í fjöldann allan af útboðum vegna byggingu nýrra mannvirkja sem og viðhaldsverkefna á vegum opinberra aðila. Staðreyndin sé hins vegar að aðeins sex arkitektastofur eru aðilar að umræddum samningi. Í ljósi þeirrar fákeppni sem ríkir innan rammasamningsins efist samtökin um að núverandi staða sé góð fyrir verkkaupa enda tilgangur rammasamnings að tryggja hagstæð verð. Að auki munu verkefni á vegum ríkis og sveitarfélaga reynast lífsnauðsynleg fyrir margar arkitektastofur á næstunni og þar af leiðandi sé nauðsynlegt að endurskoða umræddan rammasamning Ríkiskaupa hvað varðar störf arkitekta. Þannig myndi Ríkiskaup taka þátt í að auka samkeppni sem og að styðja við bakið á greininni á þessum fordæmalausu tímum.

Í erindinu óska samtökin eftir afstöðu Ríkiskaupa til málsins og hvernig stofnunin hyggst bregðast við. Farið er fram á að Ríkiskaup tryggi aðgang fleiri arkitektastofa að samningnum og gæti þannig að virkri samkeppni á markaði. Þá kemur fram að Samtökin telji brýnt að ráðist verði í aðgerðir strax, ýmist með tímabundnum úrræðum eða með heildarendurskoðun á þeim hluta samnings er varða störf arkitekta.

Hér er hægt að nálgast erindið sem sent var forstjóra Ríkiskaupa.