Fréttasafn



4. nóv. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Mannvirki

Athugasemdir við forgangsröðun og fjármögnun samgönguáætlunar

Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins fagna almennt þeirri framtíðarsýn sem birtist í samgönguáætlun 2020-2034 sem lögð hefur verið fram en gera athugasemdir um
forgangsröðun og fjármögnun. Þetta kemur fram í umsögn samtakanna sem send hefur verið samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Í umsögninni segir að sögulega litlu fjármagni hafi verið veitt til samgöngukerfisins frá efnahagsáfallinu árið 2008 og nú sé svo komið að viðhalds- og framkvæmdaþörf hlaupi á hundruðum milljarða króna, sem komi m.a. fram í skýrslu Samtaka iðnaðarins Innviðir á Íslandi – Ástand og framtíðarhorfur. Jafnframt kemur fram að í samgönguáætlun 2020-2034 megi í fyrsta skipti greina raunverulega viðleitni stjórnvalda til að vinna gegn uppsöfnuðum vanda í innviðum landsins og að hagkvæmir, skilvirkir og áreiðanlegir samgönguinnviðir sem þjóna þörfum atvinnulífs og heimila skili sér í aukinni samkeppnishæfni þjóðarbúsins, aukinni velmegun og betri lífsgæðum fyrir íbúa.

Mikilvægt að tryggja fjármögnun til langs tíma

Í athugasemdunum kemur meðal annars fram að viðhalds- og nýframkvæmdaþörf tímabilsins sé nær 400 ma.kr. en samgönguráðherra hafi kynnt á síðasta ári mat á viðhalds- og nýframkvæmdaþörf upp á um 220
ma.kr. Að auki falli til árleg viðhaldsþörf upp á 11 ma.kr. Sú aukning sem boðuð sé til
samgangna á tímabilinu sé metnaðarfullt skref í rétta átt og fagni samtökin þeirri aukningu.
Þá kemur fram í umsögninni að óvissa sé um fjármögnun sem leiðir m.a. af því að fjármögnun ráðist af framlögum í fjárlögum ár hvert og áformum í fjármálaáætlun. Mikilvægt sé að tryggja fjármögnun áætlunarinnar til langs tíma m.a. með samstarfi við einkaaðila þar sem verulegur ábati sé af vegabótum og vegstyttingum. 

Forgangsraða þarf eftir þjóðhagslegri arðsemi

Einnig eru gerðar athugasemdir við forgangsröðun þar sem sagt er að nota þurfi hagræna mælikvarða við forgangsröðun. Ein af megináherslum áætlunarinnar sé að aukning fjármagns til samgangna styðji við efnahagslegan vöxt en ekki sé að sjá að mælikvörðum kostnaðar-/ábatagreiningar sé beitt með það markmið að leiðarljósi m.a. við val á flýtingu framkvæmda. Í umsögninni segir að notkun slíkrar aðferðafræði sé í samræmi við grundvallarreglur OECD um stjórn opinberra fjármála og að forgangsraða þurfi verkefnum eftir þjóðhagslegri arðsemi, þar sem m.a. sé tekið tillit til umferðaröryggis, með viðurkenndri alþjóðlegri aðferðafræði.

Mikilvægt að verði ekki tvöföld skattheimta á höfuðborgarsvæðinu

Í umsögninni kemur fram að samtökin fagni því að nú sé í fyrsta skipti sett fram metnaðarfull sýn til 15 ára um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu í samkomulagi ríkis og borgar. Huga verði þó að auknu jafnræði milli landsvæða m.t.t. fjármögnunar og framkvæmda í endanlegri útfærslu áætlunar. Framlög ríkisins
til samgangna á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni munu dragast saman frá fyrri áætlun. Á sama tíma sé ætlunin að auka framlög til framkvæmda á landsbyggðinni. Boðað sé að átakið í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu verði fjármagnað að nokkrum hluta með flýti- og umferðargjöldum. Mikilvægt sé að ekki verði um að ræða tvöfalda skattheimtu á höfuðborgarsvæði þar sem bæði verða greidd eldsneytisgjöld auk flýti- og umferðargjalda. 

Auka ætti framlög til umferðarstýringar 

Þá segir í umsögninni að veita ætti meira fé til umferðarstýringar á höfuðborgarsvæðinu. Áhyggjuefni sé að aðeins 750 m.kr. sé veitt til umferðarstýringar á höfuðborgarsvæði á næstu 15 árum þ.m.t. 40 milljónum á næsta ári. Á sama tíma sé veitt um hundrað milljörðum til nýframkvæmda. Umferðarstýring sé mjög þjóðhagslega arðbær og skoða ætti að auka framlög til málaflokksins á næstu 5 árum.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.