Atvinnulífið hefur áhuga og metnað í loftslagsmálum
Loftslagsmálin eru eitt stærsta viðfangsefni okkar tíma og atvinnulífið ætlar ekki að láta sitt eftir liggja til að ná árangri á þeim vettvangi. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni Áhugi og metnaður í loftslagsmálum sem birtist í Morgunblaðinu um helgina. Hann segir að til marks um áhuga á málefninu hafi verið húsfyllir á stofnfundi Samstarfsvettvangs atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir og það gefi fyrirheit um vilja og metnað atvinnulífsins til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við markmið stjórnvalda. Þessi mikli áhugi dragi einnig fram þá staðreynd að vandinn sé viðurkenndur enda sé vettvangurinn stofnaður um aðgerðir.
Þá kemur fram í greininni að kannanir meðal félagsmanna Samtaka iðnaðarins staðfesti aukinn áhuga á umhverfismálum og megi gera ráð fyrir að það sé almennt þannig í atvinnulífinu að vilji sé til að gera enn betur og meira. „Við Íslendingar höfum góða sögu að segja um nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og jarðvarma til húshitunar. Þá höfum við byggt upp þekkingu og þróað grænar lausnir sem hægt er að flytja út en þannig getum við látið gott af okkur leiða og hjálpað öðrum ríkjum að ná sínum markmiðum.“ Sigurður segir í greininni að samstarfsvettvangurinn muni vonandi skila tilætluðum árangri og nefnir hann fimm þætti þar að lútandi.
Í niðurlagi greinarinnar segir hann að samstarf atvinnulífs og stjórnvalda sé lykilforsenda þess að hægt verði að ná árangri í loftslagsmálum. Það sé að miklu að keppa og með því að taka höndum saman getum við náð þeim árangri sem að er stefnt.
Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.