Auka sýnileika og tengsl evrópskra menntatæknifyrirtækja
European EdTech Alliance (EEA) opna endurbætt European EdTech Map 1. september sem hefur verið byggt upp frá grunni til þess að auka sýnileika og tengsl evrópskra menntatæknifyrirtækja. Nýja útgáfan býður upp á einfaldara skráningarferli, betri notendaupplifun og auðveldari leiðir til að finna samstarfsaðila, fjárfestingu og ný tækifæri. Fyrirtæki sem starfa á sviði menntatækni eru hvött til að skrá eða uppfæra prófíla sína fyrir opnunina. Verkefnið er unnið með stuðningi Evrópusambandsins í gegnum EmpowerED verkefnið og undirstrikar markmið EEA um að gera evrópska menntatæknigeirann sýnilegri og betur tengdan. Samtökum menntatæknifyrirtækja (IEI) eru aðilar að European EdTech Alliance. Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, segir að þetta þýði að íslensk menntatæknifyrirtæki sem séu aðilar að IEI geti frá og með 1. september skráð sig í grunninn og þannig sótt á erlenda markaði. Hún segir að íslenskar lausnir hafi þegar notið velgengni utan landsteinanna og þar með lagt sitt af mörkum til að bæta erlend menntakerfi til muna.
Hulda segir að fyrr í sumar hafi EdTech Funding Map verið kynnt og sé ört stækkandi gagnagrunnur yfir styrki og opinberar fjármögnunarleiðir í Evrópu. Gagnagrunnurinn sé aðgengilegur fyrirtækjum sem þegar séu skráð á European EdTech Map og auðveldi þeim að finna stuðning til vaxtar og þróunar. Gagnagrunnurinn sé reglulega uppfærður og þátttakendur geti lagt inn ný tækifæri frá sínum svæðum og sé verkefnið styrkt af Jacobs Foundation. Hún segir að næsta stóra skref verði tekið 1. september með opnun EdTech Invest Database – nýs vettvangs sem tengi saman nýsköpunarfyrirtæki í leit að hlutafjárfestingu og fjárfesta sem eru tilbúnir að styðja þau. Þessi vettvangur muni gera fjárfestingar í evrópska menntatæknigeiranum gagnsærri og aðgengilegri. Fyrirtæki og fjárfestar sem vilja vera hluti af fyrstu útgáfunni geta haft samband í gegnum invest@edtecheurope.org.
Mikill vöxtur EdTech-markaðarins
Hulda segir að á heimsvísu sé talið að heildarstærð EdTech-markaðarins árið 2024 hafi verið um 163–165 milljarðar USD og því sé spáð að hann nái um 187 milljörðum USD árið 2025, með árlegum vexti (CAGR) á bilinu 13–20%. Það sé einnig talið að stafrænn menntunarkostnaður muni aukast úr 227 milljörðum USD árið 2020 í 404 milljarða USD árið 2025, en þetta sé þó aðeins um 5% af heildarútgjöldum í menntun sem nemi 7,3 billjónum USD.
Þá segir Hulda að evrópski EdTech-markaðurinn hafi verið metinn á 47,98 milljarða USD árið 2024, með væntri markaðsstærð um 54,15 milljarða USD árið 2025, og spáð árlegum vexti (CAGR) upp á 12,85% til ársins 2035. Aðrir hafi þó metið stöðuna þannig: Um 72,7 milljarðar USD í 2024, með spá upp í 253,4 USD milljarða árið 2034 (CAGR 13,3 %) þar sem Þýskaland muni hafa yfir 27,7% markaðshlutdeild árið 20246. Þetta sé því vænn markaður sem íslenskar menntatæknilausnir geti vel tekið þátt í enda hafi mörg hver fengið erlendar viðurkenningar og verið á lista yfir bestu menntatæknilausnir í Evrópu og í Bandaríkjunum.
Hún segir að með þessum nýju verkfærum og upplýsingum verði auðveldara fyrir menntatæknifyrirtæki í Evrópu þar með talið á Íslandi að auka sýnileika sinn, finna fjármögnun og tengjast samstarfs- og fjárfestingaraðilum um alla álfuna. Þetta sé byggt á traustum grundvelli sem sýni staðfestan og ört vaxandi markað EdTech í Evrópu og um allan heim.