Fréttasafn



19. mar. 2025 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk Mannvirki

Aukin bjartsýni meðal stjórnenda í iðnaði

Yfir helmingur svarenda í könnun meðal stjórnenda iðnfyrirtækja telur að aðstæður í efnahagslífinu séu góðar. Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI en um 54% stjórnenda iðnfyrirtækja segja að aðstæður í efnahagslífinu á Íslandi séu góðar fyrir þeirra fyrirtæki samanborið við 44% í sambærilegri könnun fyrir ári. Álíka margir telja að aðstæður í efnahagslífinu séu slæmar eða 17% samanborið við 18% fyrir ári. Samanburður við fyrri kannanir sýnir að stjórnendur iðnfyrirtækja eru almennt ánægðari með aðstæður í efnahagslífinu nú en undanfarin tvö ár. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Outcome framkvæmdi f meðal stjórnenda íslenskra iðnfyrirtækja innan Samtaka iðnaðarins í febrúar og mars á þessu ári.

Stjórnendur eru spurðir hvernig þeir meti aðstæður í efnahagslífinu fyrir þeirra fyrirtæki litið til næstu 6-12 mánaða miðað við aðstæður í dag. Niðurstöður sýna að 39% svarenda eru bjartsýnir og telja að aðstæður í efnahagslífinu komi til með að batna á næstu misserum. Fyrir ári var þetta hlutfall 34% og 20% árið 2023. Um helmingur telur nú að aðstæður í efnahagslífinu haldist óbreyttar og aðeins 12% telja að aðstæður versni á næstu 6-12 mánuðum. Hlutfall þeirra sem telja að aðstæður versni hefur farið lækkandi en það mældist 13% í fyrra og 29% árið 2023.

Vilja fjölga starfsfólki

Stjórnendur eru spurðir að því hvernig horfir með fjölda starfsmanna í þeirra fyrirtæki á næstu 12 mánuðum. 28% svarenda telja að þeim muni fjölga en 13% að þeim muni fækka. Í könnun síðasta árs var þriðjungur fyrirtækja, 33%, sem gerði ráð fyrir því að fjölga starfsfólki á næstu tólf mánuðum og aðeins 11% reiknuðu með að fækka starfsfólki á tímabilinu. Niðurstaðan bendir til þess að á næstu tólf mánuðum munu iðnfyrirtæki vilja bæta við sig starfsfólki til að mæta auknum umsvifum.  

Vænta vaxtar í fjárfestingum

Stjórnendur iðnfyrirtækjanna eru spurðir að því hvernig þeir telja að fjárfestingar fyrirtækja þeirra í afkastagetu (húsnæði, vélum og tækjum) komi til með að þróast á næstu 12 mánuðum. 29% segja að þær aukist en 9% að þær minnki. 58% segja að þær standi í stað. Bendir þetta til vaxtar í fjárfestingum greinarinnar á næstu 12 mánuðum.

Þegar stjórnendurnir eru spurðir að því hvaða þættir gætu helst dregið úr eða frestað fjárfestingum þeirra fyrirtækis í afkastagetu á næstu 12 mánuðum segja 30% háir vextir og verðbólga og 20% lítill vöxtur í efnahagslífinu. 16% segja þungar álögur í formi opinberra skatta og gjalda og 13% skortur á vinnuafli með rétta hæfni og menntun. 11% segja flókið og langt leyfisveitingaferli framkvæmda.  

Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.   

Efnahagslif




Viðskiptablaðið, 19. mars 2025.

FF7, 19. mars 2025.

Viðskiptablaðið, 21. mars 2025.