Aukum hagsæld á Íslandi í sátt við samfélagið
Með því að tala um Hugmyndalandið viljum við hjá Samtökum iðnaðarins draga fram og leggja sérstaka áherslu á að allt sem kviknar og verður að veruleika byrjar með hugmynd. Hugmynd sem getur breytt ýmsu, stundum miklu og jafnvel öllu - ef hún fær að verða að veruleika. Þetta sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í ávarpi sínu á ársfundi Samáls sem fór fram í Norðurljósum í Hörpu.
Hann sagði að Hugmyndalandið snúist ekki um hvar við værum heldur hvert við gætum farið ef við vinnum saman og skipuleggjum okkur vel. Hvernig við mótum okkur sýn og vinnum að sameiginlegu markmiði. Sigurður sagði að framfarir verði ekki að sjálfu sér heldur með hugmyndum, ákvörðunum, framkvæmdum og samtakamætti. Hugmyndir og trúin á þær hafi fært okkur nútímann eins og við þekkjum hann í dag og lífsgæðin sem okkur finnast stundum sjálfsögð hafi aukist á undraverðan hátt. Þessar hugmyndir hafi breytt Íslandi. „Höldum áfram að hlúa að Hugmyndalandinu, okkar dýrmætustu auðlind. Eflum samkeppnishæfni, tökum ávarðanir, framkvæmum og aukum hagsæld á Íslandi í sátt við samfélagið.“
Í ávarpi Sigurðar kom einnig fram að álframleiðsla hafi aukið lífsgæði á Íslandi verulega frá því álframleiðsla hafi hafist hér á landi árið 1969 sem hafi verið á sama tíma og undirbúningur tunglfarsins Apollo hafi verið á lokametrunum. Hann vék einnig máli að því að skerðingar á afhendingu raforku til álvera á Íslandi hafi haft mikil áhrif og meðal annars leitt til 14-17 milljarða króna taps í útflutningstekjum. Hann sagði þetta vera afleiðingu viðvarandi aðgerðarleysis í orkumálum um langt árabil.
Hér er hægt að nálgast glærur Sigurðar frá fundinum.
Aðrir frummælendur á fundinum voru Gunnar Guðlaugsson, formaður stjórnar Samáls, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Sunna Ólafsdóttir Wallevik, framkvæmdastjóri Álvits. Einnig var efnt til pallborðsumræðna með þátttöku eftirtaldra: Guðríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri Samáls, Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, og Steinunn Dögg Steinsen, yfirmaður umhverfis- og öryggismála Century Aluminum. Fundarstjóri var Bjarni Már Gylfason, samskiptafulltrúi Rio Tinto á Íslandi.
Á Facebook SI er hægt að nálgast fleiri myndir frá ársfundinum.
Myndir/BIG
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.