Fréttasafn6. júl. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Orka og umhverfi

Bætir heilsu jarðar að framleiða aukna orku sjálf

Með því að framleiða aukna orku sjálf í stað þess að flytja hana inn verður Ísland ekki aðeins sjálfstætt í orkumálum heldur bætir það heilsu jarðar og skapar efnahagslegan ávinning. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein í Fréttablaðinu sem ber yfirskriftina Bætt heilsa jarðar. Hann segir að með framleiðslu rafmagns verði búið til grænt rafeldsneyti og notað sem orkugjafi í stað olíu. Ísland njóti algjörrar sérstöðu meðal ríkja heims þar sem hér á landi sé framleidd græn orka meðan heimurinn sé að miklu leyti knúinn áfram af olíu, kolum og gasi. 

Sigurður segir að græn iðnbylting standi nú yfir, almenningur, fyrirtæki og stjórnvöld um allan heim hafi tekið höndum saman um að bæta heilsu jarðar. Hér á landi hafi stjórnvöld sett metnaðarfull markmið í orku- og loftslagsmálum um kolefnishlutleysi og að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040. Það þýði að við ætlum að hætta að brenna olíu og þess í stað knýja bíla, skip og flugvélar með grænum orkugjöfum. Þá segir hann að eins þurfi að finna nýjar loftslagsvænar lausnir í iðnaði. Þetta sé mögulegt og hér á landi hafi orðið til grænar lausnir sem vakið hafa athygli víða um heim en það þurfi nýsköpun og auknar fjárfestingar til að ná settu marki. Hann segir að þetta höfum við áður gert með góðum árangri hér á landi, nú síðast með hitaveituvæðingu. Sigurður segir að þessum metnaðarfullu markmiðum viljum við ná án þess að rýra lífskjör landsmanna. Orkusækinn iðnaður hafi byggst upp fyrir um hálfri öld og hafi skilað samfélaginu miklum verðmætum og muni gera áfram.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Sigurður að eigi þessi framtíðarsýn að verða að veruleika þurfi að afla meiri orku á Íslandi og nýta hana betur. Til þess séu mörg tækifæri án þess að ganga um of á náttúruna. Þannig sé hægt að nýta gjafir jarðar og njóta þeirra á sama tíma. Hann segir að vonandi verði tilefni til að fagna árangri í loftslagsmálum árið 2040. Íslenskur iðnaður muni ekki láta sitt eftir liggja til að ná settum markmiðum í loftslagsmálum og að skapa aukin verðmæti.

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 6. júlí 2022.

Frettabladid-06-07-2022