Fréttasafn26. júl. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Mannvirki

Beðið eftir nýrri talningu SI á íbúðum í byggingu

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í Morgunblaðinu í dag að áhugavert verði að sjá hvað komi fram í haust-talningu SI á íbúðum í byggingum í ár, þá sér í lagi vegna þeirra breytinga sem hafa verið í efnahagslífinu undanfarna mánuði en samtökin framkvæma talningu á vorin og haustin. Hann segir að vortalningin í ár hafi leitt í ljós að enn væri vöxtur í geiranum en farið væri að hægjast á vextinum og lítils háttar fækkun hafi mátt greina í fjölda íbúða á fyrstu stigum í talningunni síðasta haust. „Síðast hafði íbúðum í byggingu fjölgað nokkuð frá því síðastliðið haust, en það er auðvitað orðið svolítið gömul talning í ljósi þess hvað mikið hefur gerst í efnahagslífinu undanfarna mánuði. Það verður bara að bíða niðurstaðna úr haust-talningunni og sjá hvort við greinum einhvern viðsnúning í íbúðabyggingunum. Það voru ákveðnar vísbendingar í talningunni í vor eins og að íbúðum á fyrstu stigum var að fækka aðeins, en það var ekki kominn neinn samdráttur í apríl þegar á heildina var litið.“ 

Ingólfur segir í fréttinni að spennandi verði að sjá þessar tölur í haust. „Sér í lagi vegna þess sem er að gerast í efnahagslífinu.“ Hann nefnir sem dæmi samdrátt í ferðaþjónustu og segir það hafa áhrif á íbúðamarkaðinn með ýmsum hætti. „Má þar nefna að íbúðir hafa verið notaðar sem gistirými fyrir erlenda ferðamenn. Þá hefur krónan gefið aðeins eftir frá því að hún var hæst sem eykur þá byggingarkostnað.“

Morgunblaðið/ mbl.is, 26. júlí 2019.