Borealis Data Center semur við IBM um hýsingu á skýjalausn
Borealis Data Center sem er aðildarfyrirtæki SI hefur gert samning við IBM Cloud, sem gerir viðskiptavinum fyrirtækjanna kleift að bjóða viðskiptavinum sínum aðgang að grænni skýjaþjónustu hér á landi. Borealis Data Center á og rekur gagnaver á þremur stöðum á Íslandi; í Reykjavík, á Reykjanesi og á Blönduósi. Myndin hér fyrir ofan er af starfsstöð fyrirtækisins á Blönduósi.
Í tilkynningu kemur fram að mikil gagnanotkun leiði til umtalsverðrar losunar koltvísýrings þar sem raforka er unnin með brennslu jarðefnaeldsneytis. Vaxandi þörf fyrir gagnavinnslu og -geymslu geti því haft áhrif á loftslag jarðar. Aukin vitund um alvarleika loftslagsvandans og kröfur eftirlitsaðila um aðgerðir í þessum málaflokki þýði að mörg fyrirtæki eigi erfitt með að ná jafnvægi á milli stafrænnar framþróunar og samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda. IBM Cloud hafi því leitað til Borealis Data Center um að hýsa hluta skýjaþjónustu sinnar á Íslandi til að gera IBM kleift að bjóða upp á sjálfbæra leið fyrir alþjóðleg fyrirtæki sem vilja lækka kolefnisspor sitt með því að velja umhverfisvæna skýjaþjónustu. Þá segir að samstarfið muni jafnframt bjóða íslenskum fyrirtækjum og stofnunum upp á þann valkost að geyma og vinna gögn sín í skýjaþjónustu hér á landi. Þetta muni gera aðilum sem vinni með viðkvæm gögn kleift að tryggja að gögnin séu ávallt hýst á Íslandi og tryggja aukið öryggi og fylgni við lög og reglur, en um leið að nýta alþjóðlega skýjaþjónustu til að auka hagkvæmni og öryggi í rekstri.
Björn Brynjúlfsson, forstjóri Borealis Data Center og formaður Samtaka gagnavera: „Við hjá Borealis erum einkar ánægð með þetta nýja samstarf við IBM um skýjaþjónustu IBM hér á landi. Aðstæður á Íslandi eru sérstaklega hentugar fyrir örugga og sjálfbæra gagnaversþjónustu, þökk sé meðal annars endurnýjanlegum orkugjöfum og stöðugu svölu loftslagi. Með fjárfestingu stjórnvalda í bættum gagnatengingum til Íslands höfum við aukin tækifæri til að bjóða upp á fjölbreyttari tegundir gagnaversþjónustu. Aukið samstarf við alþjóðleg tæknifyrirtæki bæta jafnframt þá þjónustu sem stendur íslenskum aðilum til boða og við erum stolt af því að bjóða upp á IBM Cloud á Íslandi.“
Thomas Kovestad, framkvæmdastjóri, IBM í Danmörku: „Við vitum að viðskiptavinum okkar er jafn annt um umhverfið og IBM og að allir þurfa að leggjast saman á árarnar til að koma okkur áleiðis til sjálfbærrar framtíðar. Þess vegna erum við að vinna með Borealis að því að búa til sjálfbærar skýjalausnir sem gerir viðskiptavinum okkar kleift að mæla og lágmarka kolefnisspor gagnavinnslu sinnar og taka upplýstar ákvarðanir um bestu leiðir að sjálfbærnimarkmiðum sínum.“
Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að sjálfbær skýjaþjónusta IBM sem hýst verði í gagnaverum Borealis Data Center muni standa innlendum og alþjóðlegum fyrirtækjum til boða innan skamms. Þá verði í tilefni af samstarfinu efnt til ráðstefnu í Reykjavík 31. ágúst nk. fyrir erlend fyrirtæki sem hafi þegar lýst yfir áhuga sínum á þjónustu IBM Cloud á Íslandi og fyrir innlenda aðila sem séu áhugasamir um að fræðast um aukna sjálfbærni við gagnavinnslu og ávinning þess að geta tryggt að gögn séu vistuð á Íslandi.