Breyta tækifærum gervigreindar í ávinning fyrir land og þjóð
Samtök iðnaðarins, öflugustu samtök atvinnurekenda á Íslandi með um 1.700 félagsmenn, hafa verið leiðandi í stefnumörkun á Íslandi um árabil. Við munum sannarlega vinna með öllum, ekki síst ykkur sem eruð hér í salnum, að því að breyta tækifærum gervigreindar í ávinning fyrir land og þjóð, og leggja okkar af mörkum til þess að koma Íslandi á kortið. Þetta sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í lokaorðum sínum á fundi SI um gervigreindarkapphlaupið og stöðu Íslands sem fram fór í Grósku 17. október.
Áhrif gervigreindar á heimsmyndina og stöðu þjóða
Sigurður sagði gervigreind sannarlega hafa haft mikil áhrif og muni hafa ráðandi áhrif á lifnaðarhætti, lífskjör og efnahagsþróun. „Hún mun einnig hafa áhrif á heimsmyndina, á stöðu þjóða. Við höfum rætt hvað öflugar tengingar styrkja borgir og lönd, flutningaleiðir, orka og nú fjarskiptatengingar verða farvegur uppbyggingar.“ Hann sagði að ný tækni fæli í sér tækifæri ekki síður en áskoranir. „Tækifærin eru sannarlega mörg og gervigreind mun nýtast okkur til að takast á við ýmsar áskoranir. Við heyrðum t.d. hér í dag hvernig Japanir horfa til gervigreindar til að takast á við öldrun þjóðar. Þetta snertir ekki bara okkur öll sem einstaklinga. Fjölmörg fyrirtæki hafa hagnýtt gervigreind. Sum þróa lausnir eða veita þjónustu tengda gervigreind. Önnur reka nauðsynlega innviði gervigreindar. Enn önnur byggja upp innviðina.“
Marka stefnu um gervigreind með þátttöku félagsmanna SI
Sigurður sagði að Samtök iðnaðarins væru að marka stefnu um gervigreind með virkri þátttöku félagsmanna og yrði unnið að því á næstu mánuðum að þróa hana áfram. Hann sagði nálgun SI byggja á eftirtöldum fimm stoðum; Innviðir þar sem byggð væri upp reiknigeta, stafræn tækni, gagnatengingar og aðgengi að gögnum. Regluverk sem styðji við framþróun en hefti ekki. Vöxtur þar sem hvatt væri til fjárfestinga en ekki dregið úr þeim og samkeppnishæfni efld. Menntun sem hjálpi fólki að tileinka sér tæknina. Samstarf og stefnumótandi samtal þar sem innan SI væri sameiginlegur vettvangur til reynsludeilingar og mótunar stefnu, virkt samstarf milli fyrirtækja, háskóla, rannsóknarsetra og stjórnvalda.og markviss miðlun til stjórnvalda um þarfir atvinnulífsins og forgangsmál.
Lestin er farin af stað og við stýrum ekki för
Þá sagði Sigurður að stundum, í samhengi við gervigreind eða annað, væri spurt hvort við séum tilbúin. Hann sagði það ekki vera réttu spurninguna því lestin sé farin af stað og við stýrum ekki för. „Við getum hins vegar valið hvort við sitjum á hliðarlínunni og fylgjumst með eða hvort við tökum þátt á okkar forsendum. Þróunin er hröð og gervigreind snýst ekki eingöngu um tæknilegar lausnir heldur um geópólitík og um samstarf.“
Með samvinnu komum við Íslandi á kortið
Í niðurlagi sínu sagði Sigurður að yfirskrift fundarins Ætlum við að móta okkar eigin framtíð? vísaði til þess að ef við mótum ekki sjálf okkar eigin framtíð þá geri aðrir það fyrir okkur. „Við þurfum að sækja tækifærin. Sviðsmyndirnar eru margar og við getum valið það sem hentar okkur best. Til þess þurfum við að fara út fyrir sílóin og vinna saman eins og fram kom hér í dag. Við þurfum öll að snúa bökum saman, hvert og eitt okkar, iðnaðurinn, ríkisvaldið, sveitarfélög, fjárfestar, orkufyrirtækin. Þannig komum við Íslandi á kortið.“
Myndir/BIG
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.