Breyta þarf viðhorfi til erlendra fjárfestinga
„Við erum á mjög áhugaverðum tímum. Ríkisstjórnin er að móta atvinnustefnu sem mun marka umgjörð atvinnulífsins næsta áratuginn,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í Morgunblaðinu um erlenda fjárfestingu í kjölfar fundar sem SI stóðu fyrir í vikunni og segir hann tímann sérstaklega heppilegan til að ræða þessi mál þar sem ríkisstjórnin vinni nú að mótun atvinnustefnu til næsta áratugar. Hann segir að á fundi sem ríkisstjórnin efndi til fyrir skömmu hafi forsætisráðherra lýst því að nú væri runninn upp tími stórframkvæmda um allt land. „Við fögnum þeirri yfirlýsingu því ef við horfum til þessara mála þá má sjá að viðhorf almennings til erlendra fjárfestinga hefur oft verið heldur neikvætt og jafnvel litað af tortryggni. Það þarf að vinna markvisst gegn því.“
Löggjafinn stígi inn og skapi fyrirsjáanleika
Í viðtalinu við Sigurð kemur fram að eitt af því sem hafi verið nefnt á fundinum sé flókið regluverk, sérstaklega hvað varðar skipulagsmál. „Þetta skiptir gríðarlega miklu máli þegar kemur að uppbyggingu. Ferlið er of flókið og hægir á nauðsynlegri þróun. Við ræddum dæmi um Íslenska kalkþörungafélagið sem stendur í deilum við skattyfirvöld. Þar var um að ræða breytingu á margra ára framkvæmd skattalaga án þess að lögunum sjálfum hefði verið breytt. Við hjá Samtökum iðnaðarins höfum heyrt af fjölmörgum öðrum dæmum þar sem skattframkvæmd breytist skyndilega án þess að lögin breytist. Þetta skapar mikla óvissu og hefur víðtæk áhrif og það eru hreinlega dæmi um valdníðslu í framkvæmd. Þarna þarf löggjafinn að stíga inn og skapa fyrirsjáanleika,“ segir Sigurður og bætir við að nauðsynlegt sé að taka þá umræðu um hver eigi að hafa eftirlit með eftirlitsfólkinu.
Hér er hægt að nálgast viðtalið við Sigurð í heild sinni.
Morgunblaðið / mbl.is, 30. október 2025.


