Fréttasafn2. feb. 2016 Iðnaður og hugverk Lögfræðileg málefni

Breytingar á fánalögum

 Frumvarp til breytinga á fánalögum, sem heimilar notkun íslenska fánans við markaðssetningu á vöru eða þjónustu, liggur nú  fyrir Alþingi. Samtök iðnaðarins hafa lengi hvatt til þess að reglur yrðu rýmkaðar að þessu leyti en telja að ýmsir ágallar séu á því frumvarpi sem nú liggur fyrir. 

Í fyrsta lagi telja SI að þar sem notkun á íslenska fánanum við markaðssetningu vísar til uppruna sé rétt að hafa meira samræmi milli notkunar fánans og alþjóðlegra upprunareglna. Samtökin eru mótfallin því að vara þurfi að vinna sér inn heimild til að nota íslenska fánann með því að hafa verið á markaði í tiltekinn árafjölda. Það breyti engu um hvort varan er íslensk eða ekki.

Í umsögn sinni um frumvarpið bentu SI jafnframt á að standi vilji Alþingis til að rýmka þær reglur, t.d. í tilviki hönnunarvara, eða herða, t.d. varðandi uppruna tiltekinna hráefna af landi eða úr sjó, þurfi að taka það skýrt fram þannig að ekki leiki vafi á um vilja löggjafans.

Í öðru lagi telja SI að sé fáninn notaður við markaðssetningu verði að koma skýrt fram að hvaða leyti varan sé íslensk, t.d. framleidd á Íslandi eða hönnuð á Íslandi. Í tilfelli vöru sem er hönnuð af íslenskum aðila undir íslensku vörumerki, en framleidd erlendis úr erlendu hráefni, verði að koma fram hvar varan er framleidd til að framleiðsluferlið sé gagnsætt og neytendur fái réttar upplýsingar um uppruna vörunnar og að íslensk framleiðsla njóti sinnar sérstöðu. 

Samtökin hafa óskað eftir að breytingar verði gerðar á frumvarpinu til að koma til móts við framangreind sjónarmið.

Umfjöllun á ruv.is