Breytingar fram undan í tölvuleikjaiðnaði á Íslandi
„Við erum í einstakri stöðu í leikjaiðnaðinum á Íslandi. Það er svipmyndarbreyting fram undan. Saga iðnaðarins hefur að miklu leyti snúist í kringum CCP síðustu tvo áratugina. Það hefur verið okkar stóra og flotta fyrirtæki í fjölda ára en vegna mikillar innspýtingar af fjármagni inn í greinina á síðustu árum munum við fara úr því innan tíðar að vera með eitt kjarnafyrirtæki á markaðnum yfir í að vera með heilan iðnað,” segir Halldór Snær Kristjánsson, formaður Samtaka leikjaframleiðenda, IGI, og framkvæmdastjóri tölvuleikjafyrirtækisins Myrkur Games, meðal annars í frétt ViðskiptaMoggans.
Kröftugur og þroskaður tölvuleikjaiðnaður
Í fréttinni segir Halldór Snær það vera eðli tölvuleikjafyrirtækja að þróun vörunnar taki mörg ár. Því líði oft langur tími án þess að neitt sérstakt sé að frétta og umheimurinn viti þar af leiðandi lítið hvað sé að gerast á bak við tjöldin. „Ef fólk væri beðið að nefna kannski þrjú íslensk tölvuleikjafyrirtæki er ég viss um að mörgum þeirra vefðist tunga um tönn, þó að fyrirtækin séu tuttugu talsins. Fyrirtækin eru ekki það vel þekkt meðal almennings. En þegar leikjafyrirtækin byrja að kynna afrakstur erfiðisins á næstu mánuðum og misserum er ég handviss um að fólk sjái að þessi kröftugi iðnaður er orðinn stór og þroskaður og býr að mjög fjölbreyttum og ólíkum fyrirtækjum sem framleiða leiki fyrir síma, net, PlayStation, Xbox o.f.l.”
Mörg öflug og spennandi fyrirtæki að stíga fram
Halldór Snær segir einnig í fréttinni að öll vinnan síðustu ár muni skila sér í flottum fyrirtækjum og öflugu starfsfólki. „Ég er oft spurður að því hvaða fyrirtæki verði þá næsta CCP hér á landi. Ég held að svarið sé að það verður ekki eitthvert eitt fyrirtæki heldur stór flóra af fyrirtækjum. Það er fallegt og skemmtilegt svar við spurningunni. Það eru mörg mjög öflug og spennandi fyrirtæki um það bil að fara að stíga fram.”
ViðskiptaMogginn, 3. júlí 2024.