Byggja þarf fleiri íbúðir í samræmi við þarfir samfélagsins
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, hafði framsögu og tók þátt í pallborðsumræðum á fundi um húsnæðismál á höfuðborgarsvæðinu sem þingmaðurinn Ágúst Bjarni Garðarsson boðaði til í Bæjarbíói í Hafnarfirði í gær. Salurinn var þéttsetinn en yfir 200 manns sóttu fundinn sem bar yfirskriftina „Tækifæri og áskoranir á húsnæðismarkaði og áhrif þeirra á íslenskt efnahagslíf til lengri og skemmri tíma”. Auk Sigurðar voru frummælendur á fundinum Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri HMS, Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, Sigurður Stefánsson, framkvæmdastjóri Aflvaka þróunarfélags, og Lilja Sólveig Kro, hagfræðingur Arion greining.Í pallborði voru auk Sigurður og Finnbjörns, Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra og fyrrverandi formaður stýrihóps um breytingar á byggingarreglugerð og Svanur Karl Grjetarsson eigandi MótX byggingarfélags. Pallborðinu stýrði Ágúst Bjarni Garðarsson.
Vegna skorts er húsnæðisliðurinn drifkraftur verðbólgu
Í máli Sigurðar kom meðal annars fram að byggja þurfi íbúðir í samræmi við þarfir samfélagsins, að það þurfi fleiri íbúðir því fólki fjölgar og þjóðin sé að eldast hratt. Hann sagði að vegna skorts á íbúðarhúsnæði hafi verð hækkað og húsnæðisliðurinn verið drifkraftur verðbólgu. Einnig sagði hann að Samtök iðnaðarins hafi lengi bent á þessa þróun og varað við afleiðingum hennar og að stjórnvöld hafi sannarlega unnið að umbótum á regluverki en meira þurfi til svo fleiri íbúðir verði byggðar. En að sú ákvörðun að hækka skatta á byggingu íbúða með lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna á verkstað hafi aukið enn á vandann.Engar lausar lóðir í boði og dregur úr umsvifum
Á fundinum kom einnig fram í máli verktaka að í augnablikinu væru engar lausar lóðir í boði og verktakar sjái fram á að þurfa að draga úr umsvifum, þvert á þarfir samfélagsins sem kalli á aukna uppbyggingu. Jafnframt kom fram að svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins hafi verið samþykkt 2015 og byggði m.a. á forsendum sem séu löngu brostnar. Íbúum hafi fjölgað langt umfram spár. Endurskoða þurfi því skipulag og hraða þurfi uppbyggingu nýrra svæða. Í því samhengi var bent á Ártúnshöfða, Úlfarsárdal, Keldnaholt, Blikastaðalandið, Setbergsland í Garðabæ og Gunnarshólma.
Hugsa þarf lengra fram í tímann
Þá kom fram að gjarnan sé rætt um að stytta byggingartíma en það þurfi miklu frekar að stytta skipulagstíma og undirbúning lóða og hugsa mun lengra fram í tímann. Sú vinna sé hjá sveitarfélögunum. Einnig að ríkisvaldið þurfi að meta hvort ástæða sé til þess að lögfesta ríkari heimildir til inngripa í skipulagsmálum sveitarfélaga á grundvelli almannahagsmuna og á móti geti ríkið flýtt fyrir uppbyggingu með aðkomu að uppbyggingu innviða.
Þarf samstillt átak þeirra sem koma að þessum málum
Í fréttatilkynningu segir Ágúst Bjarni: „Ég er ótrúlega ánægður með fundinn og mætingin, yfir tvöhundruð manns sýnir mér það sé vilji til staðar í samfélaginu til að snúa við þeirri stöðu sem við virðumst vera að stefna í. Hér kom það vel fram hjá öllum þeim sem fram komu að það þurfi að byggja meira, það þurfi að fjölga lóðum og taka svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins til endurskoðunar einmitt með það að markmiði að fjölga lóðum á nýjum svæðum. Þetta hef ég sjálfur sagt lengi en ekki alltaf fengið hljómgrunn. Í ljósi þeirrar samstöðu sem ég fann hér í dag, þá held ég að þessi fundur hafi skilað okkur fram veginn hvað þetta varðar. Nú þarf samstillt átak allra þeirra sem koma að þessum málum áfram svo þetta raungerist og við förum að sjá uppbyggingu en verið hefur. Ég læt ekki mitt eftir liggja í því.“
Hér er hægt að nálgast glærurnar sem Sigurður var með á fundinum.
Hér er hægt að nálgast upptöku frá fundinum.
Hér er hægt að nálgast fleiri myndir frá fundinum.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.
Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður.
Í pallborði svöruðu þátttakendur meðal annars já og nei spurningum með viðeigandi spjöldum.