Fréttasafn



1. nóv. 2021 Almennar fréttir

CCP fær viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun

CCP hlaut viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun árið 2021. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, afhenti viðurkenninguna á Hönnunarverðlaunum Íslands sem fram fór í Grósku. Á myndinni eru Bergur Finnbogason, listrænn stjórnandi CCP, og Sæmundur Hermannsson, vörumerkjastjóri CCP, með viðurkenninguna ásamt Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, Sigurði Hannessyni, framkvæmdastjóra SI, og Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Við afhendinguna sagði Sigurður að saga CCP hafi hafist 1997 og fyrirtækið gefið út margverðlaunaða fjölspilunarleiki á borð við EVE Online, EVE Valkyrie, Dust 514 og EVE Echoes. Í nær aldarfjórðung hafi CCP mótað og skapað sögusvið og útlit sem heillað hefur tölvuleikjaspilara á heimsvísu og nú hafi um fjörutíu milljónir manna tekið þátt í að móta þann heim sem EVE Universe er.

Hann vísaði í rökstuðning dómnefndar þar sem kemur fram að hjá CCP séu hönnuðir mikilvægir hlekkir í þverfaglegum teymum sem skapi í sameiningu einstakt sögusvið fjarlægrar framtíðar þar sem hugmyndaflug fær lausan tauminn. CCP er jafnframt einn fjölmennasti vinnustaður hönnuða á Íslandi, en þar starfa nú um 40-50 hönnuðir með afar fjölbreytt starfssvið sem spannar allt frá viðmótshönnun, leikjahönnun og þrívíðri hönnun yfir í upplifunarhönnun og frásagnarhönnun.

Sigurður sagði að þá kæmi fram í orðum dómnefndar að tölvuleikjaiðnaðurinn í dag sé mjög mikilvægur hluti skapandi greina og vaxandi hugverkaiðnaðar á Íslandi þar sem tuttugu fyrirtæki sérhæfa sig í tölvuleikjagerð. Starfsemi CCP hefur haft ómetanleg áhrif á fagið í heild og lagði á sínum tíma grunn að nýjum vettvangi hönnunar hér á landi sem flestum þykir nú sjálfsagður.

Hann sagði það ánægjulegt að afhenta þessa viðurkenningu en með henni sé ætlunin að draga fram mikilvægi þess að hönnun sé höfð að leiðarljósi frá upphafi verka þar sem markmiðið sé að auka verðmætasköpun og styrkja samkeppnishæfni.

Í dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands 2021 sátu María Kristín Jónsdóttir/Sigríður Sigurjónsdóttir, formenn, Hönnunarsafn Íslands, Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt, LHÍ, Þorleifur Gíslason, grafískur hönnuður MH&A, Margrét Kristín Sigurðardóttir, SI, Katarina Siltavuori, framkvæmdastjóri Archinfo í Finnlandi, MH&A, og Ragna Fróðadóttir, textíl- og fatahönnuður, og framkvæmdastjóri Edelkoort Inc., MH&A.

Að verðlaununum standa Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.

Myndir/Aldís Pálsdóttir.

25x30cm-HVI_W8A9442Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, tilkynnti að í ár færi viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun til CCP.

20x30cm-HVI_W8A9450Bergur Finnbogason, listrænn stjórnandi CCP. 

Hér er hægt að nálgast myndband um viðurkenninguna:

https://vimeo.com/640394322

Umræður

Efnt var til umræðna um hönnun þar sem meðal annars var spurt hvernig nýta ætti hönnunarhugsun sem tæki til breytinga í átt að sjálfbærara samfélagi. Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, stýrði umræðum með eftirtöldum þátttakendum: Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadottir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Haraldur Thorleifsson, stofnandi Ueno, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.

20x30cm-HVI_W8A9256

20x30cm-HVI_W8A9239

20x30cm-HVI_W8A9282

20x30cm-HVI_W8A9293

Hönnunarverðlaun Íslands 2021

Hönnunarverðlaun Íslands 2021 hlaut plötuumslag Hjaltalín ∞. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra afhenti viðurkenninguna til Sigurðar Oddssonar, hönnuðar, og Matthíasar Rúnars Sigurðssonar, myndhöggvara. Gabríel Benedikt Bachmann, þrívíddarhönnuður, vann einnig að gerð plötuumslagsins. Hér eru nánari upplýsingar. 


Heiðursverðlaun

Gunnar Magnússon, húsgagnahönnuður og innanhússarkitekt, hlaut Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands árið 2021. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, veitti viðurkenninguna til afkomenda Gunnars þar sem hann átti ekki heimangengt. Hér eru nánari upplýsingar.

20x30cm-HVI_W8A9525

20x30cm-Gunnar_W8A8792Gunnar Magnússon, húsgagnahönnuður og innanhússarkitekt.

Vísir, 2. nóvember 2021.