Fréttasafn



8. maí 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök leikjaframleiðenda

CCP fagnar 20 ára afmæli EVE Online

CCP sem er meðal aðildarfyrirtækja SI fagnaði 20 ára afmæli EVE Online um helgina en um 50 milljónir spilarar hafa tekið þátt í mótun EVE heimsins í lengri eða skemmri tíma. Í fréttatilkynningu kemur fram að um 1.600 starfsmenn hafi starfað hjá CCP við gerð Eve Online. Það hafi tekið sex ár að búa til fyrstu útgáfu af EVE Online (1997-2003) sem kom út 6. maí 2003.

Af þessu tilefni var boðað til veislu í höfuðstöðvum CCP í Grósku í Vatnsmýri þar sem fyrrum og núverandi starfsmenn komu saman til að fagna þessum merku tímamótunum. Á sama tíma var tilkynnt um stækkun á minnismerkinu Heimur innan heima (e. Worlds within Worlds) eftir Sigurð Guðmundsson sem stendur við Reykjavíkurhöfn og var reist árið 2014 í tilefni af tíu ára afmæli EVE Online. Þar eru grafin nöfn allra þeirra sem spilað hafa leikinn og undir því er tímahvelfing sem inniheldur fartölvu með myndbandsskilaboðum, skjölum og myndefni úr leiknum. Stefnt er að því að opna hvelfinguna þann 6. maí árið 2039. Með stækkun minnismerkisins munu spilarar leiksins einnig geta látið grafa nafn persónu sinnar í leiknum.

CCP-20-ara_2Hilmar Veigar Pétursson forstjóri CCP: ,,EVE heimurinn hefur vaxið í veldisvexti sl. 20 ár sem þakka má staðföstum tryggum þátttakendum í EVE Online, bæði spilurum og þeim sem vinna að þróun leikjarins. EVE Online er margspilunarleikur sem á sér engan líkan og óhætt er að segja að spilarar taki þar þátt af lífi og sál, eins og bæði heimsmet og samtakamáttur þeirra sýna, þegar spilarar hafa safnað fé til þeirra sem eiga um sárt að binda.“

Í tilkynningunni koma fram 21 staðreynd um EVE Online:

  • EVE heimurinn samanstendur af 7.805 sólkerfum
  • Rúmlega 60 milljónir hafa spilað leiki EVE heimsins síðustu 20 ár
  • Rúmlega 1,600 manns hafa starfað að gerð EVE Online síðustu 20 ár
  • Samanlagður spilunartími allra spilara leiksins er 447.717 ár, rúmlega ár á hvern Íslending
  • Á hverjum degir eru framkvæmd um 600 þúsund viðskipti (market trade) í efnhagskerfi EVE - sem er svipað og Nasdaq Nordic og Baltic markaðirnir samanlegt
  • Á hverjum mánuði framleiða spilarar EVE afurðir upp á ca 135 milljónir króna, eða 1,6 milljarð á ári
  • Á hverjum mánuði skptast spilarar EVE á um 1 milljarði króna í viðskiptum, helming alls peningamagns í umferð
  • Heildar peningamagn í umferð í EVE er virði sirka 2 milljarða króna, sem er 1.2% af öllum seðlum og myntum sem eru í umferð á Íslandi
  • Særsta einstaka rán í leiknum var að verðmæti rúmlega 3 milljónir króna
  • Titan, stærsta geimskipið í EVE Online, myndi þekja alla Manhattan eyju; er 18 km að lengd og vegur 2.545.547 tonn
  • Stærsta geimstöðin í EVE, Keepstar, er 160 km að lengd og myndi þekja stóran hluta New York ríkis
  • EVE minnismerkið Worlds Within a World eftir Sigurð Guðmundsson er staðsett við Reykjavíkurhöfn og eru nöfn yfir 500 þúsund spilara á grunni verksins
  • Fyrsta EVE Fanfest hátíð CCP var haldin árið 2004, sú næsta fer fram 21-23 september.
  • Lýðræðislega kjörið ráð spilara EVE heimsins heitir Council of Stellar Management og er CCP til ráðgjafar við þróun leiksins
  • Flestir spilarar EVE Online í dag koma frá Bandaríkjunum
  • Íslendingar voru i öðru sæti meðal þeirra þjóða sem spila EVE fyrstu vikuna eftir að leikurinn kom út, og á topp 20 þjóða heims fyrstu fimm árin
  • Það tók sex ár að búa til fyrstu útgáfu af EVE Online (1997-2003) sem kom út 6 maí 2003.
  • 382 starfsmenn starfa hjá CCP í dag á þremur skrifstofum fyrirtækisins; Reykjavík, London og Shanghai
  • Síðustu 20 ár hefur CCP þróað stöðugar endurbætur við leikinn í höfuðstöðvum sínum í Reykjavík sem frá árinu 2020 hafa verið í Grósku í Vatnsmýri, næsta stóra viðbótarútgáfa nefnist Viridian og kemur í júní
  • EVE Online er til á 8 tungumálum; ensku, frönsku, þýsku, rússnesku, spænsku, japönsku, kóresku og kínversku.

Á myndunum má sjá starfsfólk skála fyrir tímamótunum og Hilmar Veigar Pétursson forstjóra CCP halda ræðu.