Fréttasafn



12. jún. 2023 Almennar fréttir Efnahagsmál Mannvirki Starfsumhverfi

Dregur töluvert úr fjölda nýrra íbúða inn á markaðinn

Rætt er við Björgu Ástu Þórðardóttur, sviðsstjóra mannvirkjasviðs SI, í Sprengisandi á Bylgjunni um stöðuna á byggingarmarkaði og það sem er framundan í íbúðauppbyggingu. Þar segir þáttastjórnandinn, Kristján Kristjánsson, meðal annars að áform stjórnvalda um byggingu 35 þúsund nýrra íbúða á næstu 10 árum sé í uppnámi, kostnaður að hækka og fólksfjölgun mikil. Hann ræðir við Björgu Ástu um stöðuna í ljósi nýrra greiningar sem Samtök iðnaðarins gáfu út fyrir skömmu. „Við bentum á fyrir ári síðan að þá vorum við að takast á við gríðarlegar verðhækkanir út af stríðinu í Úkraínu og auðvitað voru líka eftirmálar af Covid, aðfangakeðjur voru rofnar og svo framvegis. Þá kom í ljós að rekstaraðstæður fyrirtækja í þessum geira, þeirra sem eru að byggja húsnæði,  eru mjög krefjandi. Við bentum á þá stöðu að það væru þessar kostnaðarhækkanir, vaxtahækkanir og takmarkað aðgengi að lóðum sem mundi leiða til þess að það væri að draga úr uppbyggingu. “

Kostnaður við meðalíbúð hefur hækkað um 7 milljónir

Björg Ásta segir að aðstæður fyrirtækjanna væru að verða erfiðari. „Síðan þá hefur harðnað meira á dalnum, vaxtahækkanir hafa komið mjög skart inn, kostnaðarverðshækkanir líka og við tókum saman í greiningu sem við birtum fyrr í þessari viku að kostnaður við meðalíbúð hafi hækkað um 7 milljónir frá því í júlí fyrir ári.“

Hún segir að þessar kostnaðarhækkanir sem meðal annars birtist í hækkun á byggingarvísitölunni séu til viðbótar við lækkun á virðisaukaskatti endurgreiðslu sem sé tekinn inn í þetta líka. „Við gerðum ráð fyrir því þegar við vorum að reikna þetta út hvaða áhrif það mundi hafa á kostnaðinn. Þetta er auðvitað staða í þeim aðstæðum sem við erum í sem er mjög erfitt að búa við og þetta leiðir líka til þess að það er að draga úr fjölda nýrra íbúða sem eru að koma inn á markaðinn töluvert. Það er spá um að það muni halda áfram.“

Spá gerir ráð fyrir 2.800 íbúðum á ári en þyrftu að vera 3.500-4.000

Björg Ásta segir að samningurinn um 35 þúsund íbúðir geri ráð fyrir að við séum að byggja 3.500-4.000 íbúðir á ári. „Við sjáum að það hefur verið stígandi frá árinu 2013 frá því við erum í algjörri lægð og náum toppnum 2020 og þá erum við að framleiða 3.800 íbúðir inn á markaðinn. Strax í fyrra erum við komin niður 2.900 íbúðir og spá HMS gerir ráð fyrir að það verði 2.800 íbúðir í ár. Þannig að það er 1.000 íbúða munur á milli 2020 og 2023. Svo ef við horfum fram á við þá lítur þetta ekki betur út. Við erum að sjá að 2025 þá gerir HMS ráð fyrir því að við séum með 30% samdrátt.“

Þarf að styðja við framboðshlið húsnæðismarkaðarins

Björg Ásta segir að þess vegna hafi Samtök iðnaðarins verið að tala fyrir því að styðja við framboðshlið húsnæðismarkaðarins og það þurfi að grípa til að gerða í tengslum við það. „Við komum inn á það í greiningunni við höfum gert það í lengri tíma og þetta er auðvitað staða sem hefur verið að teiknast upp í langan tíma en kemur mjög skarpt inn núna. Þessi samdráttur 2025 er í samræmi við niðurstöður skoðanakönnunar sem við framkvæmdum meðal félagsmanna Samtaka iðnaðarins þar sem kemur í ljós að það er 65% samdráttur í fyrirhuguðum verkefnum sem mundi raungerast 2025 og komið að fullu 2026. Við erum ekki með spá fyrir 2026 og vitum raunverulega ekki hvað gerist þá en þetta er staða sem er nokkuð svört.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.

Bylgjan, 11. júní 2023.