Fréttasafn



1. nóv. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Efnahagsframvindan ræðst af hagstjórnarviðbrögðum

Í nýrri  þjóðhagsspá Hagstofunnar sem birt var í morgun er dekkri tónn en var í síðustu spá stofnunarinnar sem birt var í maí sl. Reiknar stofnunin nú með talsvert minni hagvexti á næsta ári eða 1,7% en áður reiknaði stofnunin með því að hagvöxtur næsta árs yrði 2,6%. Talar stofnunin um hóflegan bata. Reiknar stofnunin nú með því að vöxtur næsta árs í gjaldeyristekjum, einkaneyslu og fjárfestingu fyrirtækja og heimila verði minni en áður var spáð. Segir stofnunin m.a. að heimilin munu halda að sér höndum vegna óvissu í efnahagsmálum.

Hagvaxtarspar-Hagstofunnar_1572620860323

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár sem nú er til umræðu á Alþingi er byggt á þjóðhagsspá Hagstofunnar frá því í maí síðastliðnum. Í umsögn Samtaka iðnaðarins um frumvarpið sem send var fjárlaganefnd í byrjun október sl. segir: „Við þessar aðstæður er hættulegt að ofmeta væntan viðsnúning hagkerfisins eins og virðist því miður vera gert í spám sem undanfarið hafa verið lagðar til grundvallar ákvarðanatöku í peningamálum og gerð frumvarps til fjárlaga ríkissjóðs. Í þessum spám er gert ráð fyrir að eftir tiltölulega mildan samdrátt í hagkerfinu taki hagvöxtur nokkuð kröftuglega við sér á næsta ári. Samtök iðnaðarins benda á að forsendur þessa efnahagsbata sem spárnar gera ráð fyrir eru býsna bjartsýnar og að frekari hagstjórnaraðgerða sé þörf ef viðsnúningur hagkerfisins á að vera þetta hraður hér á landi á næstunni.“

Peningastefnunefnd Seðlabankans kemur saman í upphafi næstu viku til að ákveða stýrivexti bankans. Tilkynnt verður um ákvörðun nefndarinnar 6. nóvember. Samhliða vaxtaákvörðuninni nú mun Seðlabankinn birta nýja þjóðhags- og verðbólguspá. Reikna má með því að versnandi efnahagshorfur endurspeglist í spá bankans nú.

Í ljósi útlits í efnahagsmálum hafa Samtök iðnaðarins hvatt til þess að aðgerðir í bæði fjármálum hins opinbera og peningamálum verði notaðar til að örva vöxt efnahagslífsins. Að mati samtakanna er þörf á frekari lækkun stýrivaxta og hagvaxtarhvetjandi aðgerðum í ríkisfjármálunum.