Fréttasafn



29. okt. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Tilefni til að lækka stýrivexti frekar

Peningastefnunefnd Seðlabankans kemur saman í upphafi næstu viku til að ákveða stýrivexti bankans. Tilkynnt verður um ákvörðun nefndarinnar 6. nóvember. Samtök iðnaðarins telja að lækkun verðbólgu og verðbólguvæntinga að verðbólgumarkmiði undanfarið gefi peningastefnunni góða kjölfestu og svigrúm til þess að lækka stýrivexti Seðlabankans til þess að milda niðursveifluna í efnahagslífinu. Telja Samtök iðnaðarins að með lækkun stýrivaxta bankans nú geti peningastefnunefndin hjálpað fyrirtækjum og heimilum að takast á við versnandi efnahagsástand.

Síðasta vaxtaákvörðun var 2. október sl. og ákvað nefndin þá að lækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur. Um var að ræða fjórðu vaxtalækkun bankans á þessu ári en vextir bankans hafa verið lækkaðir um samtals 1,25 prósentur frá því að vaxtalækkunarferlið hófst í maí. Meginvextir bankans eru nú 3,25% og því umtalsvert svigrúm til lækkunar að mati Samtaka iðnaðarins.

Raunvextir, mældir sem munur á núverandi verðbólgu og stýrivöxtum bankans, hafa hækkað frá síðustu vaxtaákvörðun. Sama má segja um raunstýrivexti bankans mælda út frá verðbólguvæntingum og stýrivöxtum. Aðhald peningastjórnunarinnar hefur því aukist á sama tíma og útlitið í efnahagsmálunum hefur dökknað. Samtök iðnaðarins telja að við þessu þurfi peningastefnunefnd Seðlabankans að bregðast.

Vaxtalækkanir Seðlabankans undanfarna mánuði hafa verið mikilvægar í því að styðja við íslenskt efnahagslíf á tíma versnandi efnahagsástands. Rekstarumhverfi íslenskra fyrirtækja hefur verið krefjandi sem kallað hefur á umtalsverðar hagræðingaraðgerðir. Með réttum aðgerðum í hagstjórn má breyta efnahagshorfum umtalsvert til batnaðar.

Samdráttur mælist nú á mörgum sviðum efnahagslífsins. Atvinnuleysi hefur aukist og launþegum fækkað í öllum helstu greinum hins almenna vinnumarkaðar. Hægt hefur á hagvexti í mörgum af helstu viðskiptalöndunum og efnahagshorfur þar dökknað. Hefur þetta dregið úr væntingum um vöxt gjaldeyristekna og hagvöxt íslenska þjóðarbúsins. Samhliða vaxtaákvörðuninni nú mun Seðlabankinn birta nýja þjóðhags- og verðbólguspá. Reikna má með því að versnandi efnahagshorfur endurspeglist í spá bankans nú.

Verðbólga mælist nú 2,8% og hefur hún hjaðnað frá síðustu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar bankans en þá var hún 3,0%. Verðbólgan hefur ekki mælst þetta lág í heilt ár. Lág innflutt verðbólga, frekar stöðugt gengi krónunnar og hóflegar innlendar kostnaðarverðshækkanir leggjast á eitt með að halda verðbólgu lágri. Samhliða lækkun verðbólgu undanfarið hafa verðbólguvæntingar verið að lækka og eru þær nú við verðbólgumarkmið enda verðbólguhorfur góðar um þessar mundir. 

Verdbolga-og-styrivextir-mai-oktober

Viðskiptablaðið, 29. október 2019

mbl.is, 29. október 2019

Frettabladid.is, 29. október 2019

ViðskiptaMogginn, 30. október 2019