Fréttasafn30. okt. 2019 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Lækkun stýrivaxta hjálpar fyrirtækjum og heimilum

Í ViðskiptaMogganum í dag er rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, um stýrivexti en Samtök iðnaðarins telja að lækkun verðbólgu og verðbólguvæntinga undanfarið gefi peningastefnunni góða kjölfestu og svigrúm til þess að lækka stýrivexti Seðlabankans til þess að milda niðursveiflu í efnahagslífinu. Í blaðinu segir að í ítarlegri umfjöllun á vefsíðu SI segi að með lækkun stýrivaxta bankans geti peningastefnunefndin hjálpað fyrirtækjum og heimilum að takast á við versnandi efnahagsástand. Ingólfur segir samdráttinn í hagkerfinu sjást víða, tölur frá Hagstofunni um fjölda launþega sýni t.d. samdrátt almennt í öllum megingreinum viðskiptahagkerfisins og miklar hópuppsagnir undanfarið og aukið atvinnuleysi miðað við í fyrra, sé til marks um samdrátt. Þá er vitnað til orða Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í frétt Morgunblaðsins í gær að vaxtalækkanir Seðlabankans í ár hafi ekki skilað sér sem skyldi vegna takmarkaðrar útlánagetu bankanna. 

Morgunblaðið , 30. október 2019.