Fréttasafn



16. sep. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Starfsumhverfi

Eftirlit með réttindalausum verði fært frá lögreglu

Lilja Björk Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur SI, segir í frétt Morgunblaðins að lögregla hafi ekki tök á því að hafa frumkvæðisathugun á hvort fyrirtæki og einstaklingar starfi í samræmi við lög um handiðnað. Í fréttinni segir Lilja að réttast væri að eftirlit með réttindalausum aðilum á markaðinum væri samkvæmt lögum hjá öðrum eftirlitsaðila sem væri betur til þess fallinn að anna eftirlitinu með virkum hætti og nefnir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, sem dæmi um mögulega lausn. „Það eru nú þegar aðilar sem starfa sem eftirlitsaðilar og gætu verið betur til þess fallnir að taka við þessu.“

Lilja segir í fréttinni að HMS sinni í dag ákveðnu eftirlitshlutverki varðandi aðila sem eru meistarar í iðngreinum en stofnunin hafi hins vegar engar heimildir til þess að hafa eftirlit með þeim sem eru réttindalausir og starfi því andstætt við lög um handiðnað. 

Aðspurð svarar Lilja að samtökin hafi orðið vör við fjölgun réttindalausra aðila á markaðnum og myndu fagna því að fundinn yrði betri og skilvirkari farvegur til að glíma við vandann. „Vegna þess að þegar allt kemur til alls er þetta öryggis- og neytendamál. Það er það sem er alvarlegast í þessu.“ 

Þá kemur fram í fréttinni að Morgunblaðið hafi fjallað um það fyrir rúmu ári að samtökin gagnrýndu sinnuleysi lögreglu varðandi svarta atvinnustarfsemi og segir Lilja miður að staðan sé óbreytt og að samtökin vonist hins vegar eftir samtali við stjórnvöld í góðu samráði við greinarnar og hagaðila um að koma málefninu í betri farveg. „Auðvitað fylgir þessu að það þurfi að fara í endurskoðun á lögunum og svo framvegis. Það er einfalt að segja þetta en auðvitað er heilmikil vinna sem þarf að eiga sér stað. En það er samt betra að hefja það samtal fyrr en síðar.“

Morgunblaðið, 16. september 2024.

Morgunbladid-16-09-2024