Fréttasafn



17. apr. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök gagnavera

Eftirspurn eftir þjónustu gagnavera mun stóraukast

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, segir í frétt ViðskiptaMoggans um aðkomu SI að alþjóðlegri ráðstefnu um gagnaversiðnað sem fer fram í Hörpu að félagsmenn SI í gagnaversiðnaði, fjarskiptum og upplýsingatækniiðnaði taki þátt og að samtökin sjálf komi fyrst og fremst að kynningu á ráðstefnunni. 

Samtök gagnavera áttu frumkvæði 

Þegar Sigríður er spurð um hverjir hafi átt frumkvæði að því að halda ráðstefnuna hér á landi segir hún það hafa verið samspil nokkurra þátta en Samtök gagnavera, sem eru innan SI, hafi átt frumkvæði að samskiptum við skipuleggjanda ráðstefnunnar, Broadgroup, í tengslum við að halda ráðstefnuna hér á landi. Þau samskipti hófust árið 2021. Spurð um þýðingu þess að fá svo stóra ráðstefnu til landsins segir Sigríður að hún auki sýnileika Íslands sem eftirsóknarverðs áfangastaðar fyrir fjölbreytta flóru gagnaversþjónustu: „Spár gera ráð fyrir að eftirspurn eftir þjónustu gagnavera muni stóraukast næstu misseri, sérstaklega á kaldari svæðum. Þetta er ákveðin viðurkenning á því tækifæri sem nú er til staðar fyrir Ísland en rekstur gagnavera er einkar áhugaverður fyrir Ísland enda er um að ræða umhverfisvænan grænan iðnað þar sem raforku og ákjósanlegu loftslagi er breytt í rafræna vöru sem hægt er að afhenda hvar sem er í heiminum á augnabliki. Ísland er að mörgu leyti fyrirmynd annarra landa í þessum iðnaði vegna nýtingar á grænni raforku.“

Mikill áhugi á gagnaversiðnaði á Norðurlöndunum

Þegar Sigríður er spurð hvort Ísland sé vel þekkt í gagnaversheiminum segir hún: „Áhugi á gagnaversiðnaði á Norðurlöndunum er mikill um þessar mundir og unnið hefur verið að því að tryggja að jafnframt sé horft til Íslands. Áhuginn er klárlega að aukast, ekki síst með tilkomu nýja fjarskiptasæstrengsins IRIS, sem tekinn var í notkun á síðasta ári. Með honum stórjókst öryggi og tengigeta fyrir flutning á gögnum til og frá Íslandi. Það vekur athygli að orkunýtni á Íslandi fyrir gagnaver er ein sú besta í heiminum. Hið svala stöðuga loftslag sem við búum við verður að auðlind þegar kemur að rekstri gagnavera.“

Aukin eftirspurn eftir gagnaversþjónustu vegna gervigreindar

Þá segir Sigríður spurð um þátttakendur að þar verði að finna fræðifólk, ráðgjafa, fólk úr stjórnsýslu og fulltrúa stofnana. „Það er fólk að koma m.a. frá Sameinuðu þjóðunum, leiðtogar í gagnaversiðnaði, innviðafjárfestingum, fjármálaþjónustu og úr orkugeiranum.“ Um það hvaða mál verði helst til umræðu segir hún að stafrænir innviðir/upplýsingatækniinnviðir með tilliti til sjálfbærni og áskorana í loftslagsmálum verði áberandi. „Gervigreind, og aukin eftirspurn eftir gagnaversþjónustu vegna gervigreindar, verður líklega fyrirferðarmikið umræðuefni sömuleiðis.“

ViðskiptaMogginn, 17. apríl 2024. 

VidskiptaMogginn-17-04-2024_png