Fréttasafn



3. okt. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Einfaldara regluverk greiðir fyrir hraðari uppbyggingu

Verkefnið framundan hlýtur að vera að reisa þær þúsundir íbúða sem vanti á fasteignamarkað um land allt svo landsmenn eigi kost á hagkvæmu húsnæði og með því að einfalda regluverk má greiða fyrir hraðari uppbyggingu og lækka verð. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, meðal annars í frétt RÚV í dag. Samtök iðnaðarins spá því að rúmlega 2.200 íbúðir verði fullgerðar á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2019. Það er fjölgun á íbúðum á svæðinu um rúmlega tvö prósent og rétt rúmlega 200 íbúðum fleiri en samtökin spáðu í mars að yrðu fullgerðar á næsta ári. 

Í íbúðatalningu Samtaka iðnaðarins kemur fram að greina megi hægari vöxt í þeim hluta íbúða í byggingu sem eru fokheldar og lengra komnar.  

Sigurður segir í samtalinu við RÚV að talsverð aukning sé á íbúðum á fyrri byggingarstigum sem segi að mörg verkefni hafi farið í gang á síðustu mánuðum. Ljóst sé að átak þurfi í húsnæðismálum því of lítið framboð á íbúðum hafi leitt til verðhækkana bæði á leigumarkaði og almennum markaði. Félagsmenn í Samtökum iðnaðarins, sem séu bæði verktakar og stór fyrirtæki, séu reiðubúnir til að byggja meira en að mati samtakanna þurfi að einfalda regluverkið og ryðja hindrunum úr vegi og sveitarfélög að útvega byggingarsvæði, hvort sem það er á þéttingarreit eða nýjum svæðum. Sigurður segir að með því að einfalda regluverk fyrir uppbyggingu væri hægt að auka framboð á íbúðum og þannig hafa áhrif á kjarasamninga.  „Bæði hefur í rauninni áhrif vegna þess að hraðari uppbygging þýðir líka að það koma þá fleiri íbúðir inn á markaðinn fyrr sem þýðir að jafnvægi næst fyrr á markaðinum þannig að verðið ætti að endurspegla það að lokum.“

RÚV, 3. október 2018.