Einnig viðurkenning fyrir fagmennsku greinarinnar
Sigurður Már Guðjónsson, eigandi Bernhöftsbakarís og formaður Landssambands bakarameistara, var fyrir skömmu valinn kökugerðarmaður ársins af alþjóðasamtökum bakara og kökugerðarmanna, UIBC – International Union of Bakers and Confectioners. Af því tilefni mættu fulltrúar Samtaka iðnaðarins í bakaríið til Sigurðar til að óska honum til hamingju með heiðurinn og færa honum blóm.
Þessi viðurkenning telst til æðstu viðurkenninga í heimi kökugerðar. Valið telst því mikill heiður fyrir Sigurð Má en jafnframt er það mikil viðurkenning á fagmennsku sem er í greininni á Íslandi og beinir kastljósinu að því sem vel er gert á því sviði.
Landssamband bakarameistar var stofnað 1958 og telst því með einni elstu iðngrein hér á landi. Innan sambandsins eru bakarameistarar og fyrirtæki í brauð- og kökugerð.
Mynd/BIG
Á myndinni eru, talið frá vinstri, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, Sigurður Már Guðjónsson, eigandi Bernhöftsbakarís og formaður Landssambands bakarameistara, og Árni Sigurjónsson, formaður SI.