Fréttasafn2. okt. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Menntun Samtök menntatæknifyrirtækja

Endurskilgreina menntun fyrir komandi kynslóðir

Samvinna fræðasviða, rannsókna og iðnaðar er kemur að menntatækni gefur möguleika á að endurskilgreina menntun fyrir komandi kynslóðir. Þetta segir Íris E. Gísladóttir, stofnandi fyrirtækis í menntatækni og formaður Samtaka menntatæknifyrirtækja, IEI, í grein á Vísi sem ber yfirskriftina Byggjum brú fyrir framtíðina. Hún segir að í heimi menntatækni (e. edtech), þar sem markmiðið sé að menntakerfið þróist í takt við þarfir samfélags sem byggi í auknum mæli á tækni og nýsköpun, leiki hágæðarannsóknir lykilhlutverk. Ekki síst þegar komi að yngri stigum menntakerfisins. Þar séu rannsóknarbyggðar menntatæknilausnir grundvöllur markvissra breytinga sem skili árangri.

Menntatækni lykill að því að búa nemendur undir áskoranir 21. aldarinnar

Íris segir í greininni að nýting menntatækni í kennslu snúist ekki bara um að kaupa tæki og innleiða stafrænar lausnir heldur þurfi að endurhugsa menntunina sjálfa. Þar sé menntatækni lykillinn að því að skapa kraftmikið námsumhverfi, persónulega námskrá og að búa nemendur undir áskoranir 21. aldarinnar. Til að ná þessum háleitu markmiðum sé samstarf milli fræðasviða háskólanna, rannsókna og atvinnulífs nauðsynlegt.

Sameiginlegt verkefni að móta bjartari framtíð fyrir komandi kynslóðir

Í greininni segir Íris að þetta snúist ekki bara um nýsköpun; þetta snúist um sameiginlega skuldbindingu til að styrkja nemendur, kennara og skóla með umbreytandi lausnum. Þetta snúist um að búa til vistkerfi þar sem rannsóknardrifin menntatækni blómstri. Þar sem mörkin milli fræðasviðs og atvinnulífs hverfi í þágu menntunar. „Í þessari vegferð skulum við muna að sameiginlegt verkefni okkar er að móta bjartari framtíð fyrir komandi kynslóðir. Spurt var í upphafi hvar lykillinn að árangri í menntakerfinu liggur. Lykillinn liggur í að stuðla að nánara samstarfi háskóla, rannsóknastofnana og einkageirans.“

Á vef Vísis er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Vísir, 29. september 2023.