Erlendur mannauður mikilvægur fyrir íslenskan hugverkaiðnað
Lilja Björk Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur SI, var meðal þátttakenda á ráðstefnu Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands um vinnumansal á Íslandi sem haldin var í Hörpu í gær. Yfirskrift málstofunnar sem Lilja tók þátt í bar yfirskriftina Hver má vinna á Íslandi? Kostir og gallar við núverandi löggjöf um atvinnuleyfi.
Lilja sagði frá því að á undanförnum árum hafi tækni- og hugverkaiðnaður á Íslandi vaxið hratt og fest sig í sessi sem fjórða stoð útflutnings þjóðarbúsins. Útflutningstekjur hafi þrefaldast á síðasta áratug, sem hafi haft jákvæð áhrif á íslenskt hagkerfi og gert það fjölbreyttara og sveigjanlegra. Þessi öri vöxtur kalli hins vegar á fjölbreyttan og sérhæfðan mannauð, en fyrirtæki í greininni hafi átt erfitt með að finna starfsfólk sem býr yfirþeirri sérhæfðu menntun og/eða reynslu sem uppfylli þær kröfur sem vöxturinn kallar á. Hún sagði frá því að greining SI sýni að búast megi við 77% fjölgun starfsfólks í tækni- og hugverkaiðnaði á næstu fimm árum. Hins vegar sé skortur á útskrifuðum sérfræðingum úr STEM-greinum á Íslandi í alþjóðlegum samanburði, sem hafi orðið til þess að fyrirtæki treysta á erlenda sérfræðinga til að mæta þessari þörf.
Þá greindi Lilja frá því að til að liðka fyrir komu erlendra sérfræðinga leggi SI áherslu á að regluverk verði einfaldað, komið verði á einni miðlægri umsóknargátt, málsmeðferðartími styttur og að hvatakerfi verði endurskoðað. Á árinu 2023 voru afgreiddar 303 umsóknir um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga, sem sé 12% aukning frá árinu áður og sýni vaxandi mikilvægi erlends mannauðs í tækni- og hugverkaiðnaði.
Hér er hægt að nálgast glærur Lilju frá málstofunni.