Fréttasafn



7. apr. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Samtök menntatæknifyrirtækja

Evolytes tryggir 1,3 milljónir evra til að auka útbreiðslu

Íslenska menntatæknifyrirtækið Evolytes sem er meðal aðildarfyrirtækja SI hefur tryggt 190 milljón króna hlutafjáraukningu til að drífa áfram núverandi tekjuaukningu frá Suður-Ameríku og Indlandi, þar sem Evolytes þjónar nú þegar yfir 160.000 nemendum í 1.400 skólum. Ásamt því að ýta af stað vexti fyrirtækisins, á Indlandi, Suður-Ameríku og Suðaustur-Asíu. Á vef EU-Startups er greint frá þessari fjármögnun.

Í fréttatilkynningu kemur fram að Evolytes hafi verið stofnað árið 2017 og sé nú eitt af mest vaxandi menntatæknifyrirtækjum hér á landi eftir að hafa fest sig í sessi vegna þess árangurs sem nemendur ná í stærðfræði með notkun námskerfisins, sem byggt er á þverfaglegum rannsóknum. Í tilkynningunni segir að Evolytes fái nemendur til að elska að læra stærðfræði, veiti nemendum einstaklingsmiðað námsefni í rauntíma og kennurum einstakt tækifæri á djúpu innsæi í námsgetu nemanda með rauntíma námsmati. Þá segir að Evolytes hafi sýnt fram á fordæmalausa getu til að hafa áhrif á árangur, viðhorf og áhuga nemenda með fjölbreyttan bakgrunn í fjölmörgum löndum.

Jafnframt kemur fram í tilkynningunni að stofnendur Evolytes vonist til þess að árangur þeirra styrki stöðu menntatæknimarkaðar hér á landi, sem hafi hingað til staðið höllum fæti miðað þau lönd sem við viljum bera okkur saman við. Þá segir að Evolytes voni að með því að ryðja brautina og sanna að íslensk menntatæknifyrirtæki geti náð árangri á alþjóðavettvangi, skapi fordæmi sem hvetji til frekari nýsköpunar á þessu sviði. Það gæti leitt til aukinnar fjölbreytni í námsgögnum og kennsluaðferðum, sem myndi stuðla að bættum námsárangri íslenskra nemenda. Auk þess gæti slíkur árangur dregið að sér fjárfestingar og stuðning við menntatæknimarkaðinn á Íslandi, sem myndi efla samkeppnishæfni landsins á þessu sviði. Íslensku menntakerfi til framdráttar.