Fréttasafn



22. jún. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Fagnaðarefni að rammasamningur Ríkiskaupa er ekki framlengdur

Samtök arkitektastofa, SAMARK, fagna ákvörðun Ríkiskaup að nýta ekki framlengingarheimild rammasamnings um rekstrarráðgjöf og rammasamnings um umhverfis-, skipulags- og byggingamál. Ákvörðunin er tekin í ljósi markaðsaðstæðna í kjölfar COVID-19 og í samráði við fjármála og efnahagsráðuneytið. 

SAMARK fagna ákvörðuninni enda ljóst að ástandið á markaðnum hefur breyst mikið frá því að rammasamningurinn um umhverfis-, skipulags- og byggingarmál var gerður í lok árs 2018. Forsendur samningsins hafa breyst og núverandi aðstæður kalla á meira og víðtækara aðgengi fyrirtækja að þeim átaksverkefnum sem ljóst er að fara þarf í á næstu misserum.

Samningurinn fellur þó ekki úr gildi fyrr en í nóvember 2020 og fram að þeim tíma benda Ríkiskaup á að rétt sé að hafa í huga að samningurinn sé mjög sveigjanlegur þannig að kaupendum sé ekki skylt að kaupa innan hans í mörgum tilvikum. 

Í útboðsgögnum, kafla 1.1., segir t.d. að:

  • kaupendur áskilja sér rétt, með heimild í 2. mgr. 40. gr. OIL, til að bjóða út með almennu útboði ráðgjafarverkefni yfir útboðsmörkum innanlands skv. 1. mgr. 23. gr. OIL.
  • kaupendum er heimilt skv. 2. mgr. 40. gr. OIL að undanskilja verkefni og kaupa þjónustu með öðrum lögmætum innkaupaaðferðum OIL:
    1. þar sem þátttaka erlendra fyrirtækja gæti eflt samkeppni til hagsbóta fyrir verkefnið (crossborder interest).
    2. þar sem lítil samkeppni er innan tiltekins flokks – t.d. færri en 5 fyrirtæki innan flokks sem eru sérhæfð í verkefnum samskonar og því sem bjóða á út. Með sérhæfingu er átt við að fyrirtæki hafi unnið að a.m.k. 6 samskonar verkefnum og bjóða á út sl. 3 ár.

Dregur úr eftirspurn hjá arkitektastofum

Nýleg könnun á vegum SAMARK sýnir að dregið hefur úr eftirspurn hjá nánast öllum arkitektastofum vegna COVID-19 faraldursins eða hjá 87%. Þá telja 89% að eftirspurn muni dragast enn frekar saman á næstunni.

Í viðtali í Fréttablaðinu í byrjun júní lýsir Jón Ólafur Ólafsson, formaður SAMARK, yfir áhyggjum af ástandinu „Arkitektafyrirtækin eru dálítill vegvísir, þetta er svona kólibrífugl sem segir okkur til um hvers má vænta því við erum einfaldlega þeir fyrstu sem yfirleitt koma að borði. Þess vegna er þetta ógnvænlegt fyrir þá sem eiga eftir að koma og þá erum við að tala um alla sérráðgjafana og verktakafyrirtækin. Ef samdrátturinn er að verða svona mikill og harkalegur hjá okkur þá er þetta bara bein ávísun á það sem mun gerast hjá öðrum nema það verði farið í framkvæmdir.“