Fréttasafn



8. ágú. 2024 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk Mannvirki Starfsumhverfi

Fasteignaskattar af atvinnuhúsnæði hækkað um 50% á 10 árum

Samtök iðnaðarins áætla að fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði muni nema tæplega 39 milljörðum á næsta ári sem er nær 7% hækkun á milli ára. Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI. Skýrist hækkunin af hækkun fasteignamats. Gangi áætlunin eftir munu fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verða 50% hærri á næsta ári að raunvirði en þeir voru fyrir 10 árum. 

Í greiningunni kemur fram að álagðir fasteignaskattar á íslensk fyrirtæki séu mjög háir í alþjóðlegum samanburði. Þeir eru t.d. mun hærri hér en að jafnaði í ríkjum OECD. Hlutfall þessara skatta þar er tæplega 0,5% af landsframleiðslu en 0,8% hér. Hlutfall fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði er mun hærra hér en á hinum Norðurlöndunum. Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði í Noregi eru ríflega 0,1% af landsframleiðslu, 0,3% í Svíþjóð og 0,4% í Finnlandi.

Í greiningunni kemur einnig fram að SI telja að reglur um útreikning fasteignaskatta séu afar óheppilegar hér á landi. Álagning fasteignaskatta er beintengd við þróun fasteignamats sem aftur þróast í takti við mat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um þróun verðs atvinnuhúsnæðis. Í kerfinu felst hvati fyrir sveitarfélög til að takmarka lóðaframboð því þannig geta þau þrýst verði húsnæðis upp og aukið sínar tekjur af fasteignasköttum. Það er því hvati í kerfinu til að skapa lóðaskort. Í ýmsum löndum hefur verið tekið á þessum galla með því að takmarka eða koma alfarið í veg fyrir að mikil hækkun á húsnæðisverði skili verulegri hækkun fasteignaskatta.

Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.

Fasteignaskattar

 


Morgunblaðið, 8. ágúst 2024.

mbl.is, 8. ágúst 2024.

Vísir, 8. ágúst 2024.

Viðskiptablaðið, 8. ágúst 2024.