Fréttasafn



15. sep. 2022 Almennar fréttir Félag ráðgjafarverkfræðinga Mannvirki

Félagsfundur FRV samþykkir nýjar siðareglur félagsins

Félag ráðgjafarverkfræðinga hélt félagsfund í dag þar sem lagðar voru til nýjar siðareglur félagsins. Nýjar siðareglur fyrir FRV hafa verið í skoðun frá árinu 2018 og lagði stjórn félagsins fram tillögu sína að nýjum siðareglum félagsins. Fundarmenn félagsfundarins samþykktu reglurnar með miklum meirihluta og taka þær gildi daginn eftir samþykkt þeirra, 16. september 2022. Stjórn félagsins kemur saman í lok september þar sem stjórnarmenn munu skipa nýja siðanefnd og setja henni málsferðarreglur í samræmi við lög félagsins.

Á félagsfundinum fór Reynir Sævarsson, formaður félagsins, einnig yfir helstu umræður og niðurstöður af fundi RiNord sem sóttur var af félaginu í júní sl. Fundurinn fór fram í Stokkhólmi og kvað Reynir hann hafa verið mjög góðan og sagði systursamtök FRV að mestu vera að eiga við sömu vandamálin og áskoranir. Mikið hafi verið rætt um stöðu mála í Úkraínu og uppbygginguna sem framundan væri í ríkinu að loknum átökum þar í landi. Umhverfismál hafi verið mikið rædd og kvað hann samhljóm vera hjá öllum fulltrúum um að mikil aukning væri í verkefnum sem snúa að sjálfbærni.

Bjartmar Steinn Guðjónsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, fór yfir stöðu mála á kostnaðaráætlunarverkefni félagsins sem unnið er í samvinnu við Mannvirki – félag verktaka og Samtök arkitektastofa. Bjartmar sagði afurðina nú tilbúna en unnið væri að gerð heimasíðu sem muni hýsa hana þar sem öllum verði boðið að sækja afurðina og nýta í sinni vinnu við gerð kostnaðaráætlana. Framundan væri undirbúningur viðburðar á vegum félaganna sem stóðu að þessu verkefni þar sem verði opnað formlega á afurð verkefnisins.

Hér er hægt að nálgast siðareglur félagsins.