Fréttasafn



14. okt. 2024 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk Mannvirki Orka og umhverfi

Fjölmenn ráðstefna um græna orku og samvinnu í ríkisheimsókn

Vel á annað hundrað leiðtogar úr íslensku og dönsku atvinnulífi sóttu vel heppnaða ráðstefnu um orku, grænar lausnir, viðskipti og samvinnu sem haldin var í Kaupmannahöfn í síðustu viku í tilefni af ríkisheimsókn forseta Íslands til Danmerkur. Samtök iðnaðarins skipulögðu ráðstefnuna ásamt Íslandsstofu, Grænvangi og Dansk-íslenska viðskiptaráðinu í samvinnu við sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn. Dansk Industri, State of Green og danska utanríkisríkisráðuneytið höfðu umsjón með skipulagningunni af hálfu Dana.

Fjölmörg aðildarfyrirtæki Samtaka iðnaðarins voru í viðskiptasendinefnd sem fylgdi forsetanum, auk fulltrúa Samtaka iðnaðarins sem voru Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, sem var í opinberu sendinefndinni og Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, sem var í viðskiptasendinefndinni.

Í viðskiptasendinefndinni voru tæplega 70 manns frá um 50 fyrirtækjum og samtökum. Aðildarfyrirtæki SI, Carbfix, CRI, Borealis, Kerecis og Össur, áttu fulltrúar í umræðum á ráðstefnunni. 

Á ráðstefnunni sem haldin var í húsnæði Dansk Industri við Ráðhústorgið í Kaupmannahöfn fluttu Friðrik X. Danakonungur og Halla Tómasdóttir forseti Íslands ávörp. Í dagskrá viðskiptahluta heimsóknarinnar var áhersla lögð á græna orku, nýsköpun, tækni og grænar lausnir. Þá var sérstaklega fjallað um samvinnu landanna á sviði fjárfestinga og viðskipta en samvinna á milli Íslands og Danmerkur hefur verið mikil um árabil og aukist mikið á undanförnum árum, meðal annars með fjárfestingu Dana í íslensku atvinnulífi og fjárfestingum íslenskra fyrirtækja í Danmörku. 

Á ráðstefnunni var fjallað um viðskiptasamstarf og samvinnu þjóðanna sem og samstarfstækifæri á sviði grænnar orkuframleiðslu og grænna lausna í átt að kolefnishlutleysi. Þar geta Ísland og Danmörk lagt sitt af mörkum með aukinni þekkingarmiðlun á milli landanna og samstarfi á alþjóðlegum vettvangi enda standa báðar þjóðirnar framarlega hvað varðar nýtingu endurnýjanlegrar orku og nýsköpunar á sviði loftslagslausna.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, tók þátt í pallborðsumræðum um orkumál og áskoranir vegna breyttrar heimsmyndar og Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, stýrði panel um tækifæri vegna stóraukinnar eftirspurnar og orkuþarfar vegna vinnslu gervigreindar.

Viðskiptasendinefndin heimsótti einnig tvö íslensk fyrirtæki í Kaupmannahöfn, 66 norður og Marel.

Þess má geta að í fyrirtækjum í eigu Dana starfa fjölmargir starfsmenn á Íslandi. Meðal þeirra fyrirtækja sem eru í danskri eigu má nefna Kerecis (140 starfsmenn á Íslandi), Cowi Ísland (240 starfsmenn á Íslandi), Ístak (um 500 starfsmenn á Íslandi) auk Emblu Medical (áður Össur/640 starfsmenn á Íslandi) sem er að meirihluta í eigu danska fjárfestingarfélagsins Demant Invest.

Í gegnum tíðina hafa mörg íslensk fyrirtæki opnað starfsstöðvar í Danmörku og má þar nefna Marel og Controlant. Nýlega var einnig tilkynnt um fjárfestingu atNorth í sínu stærsta gagnaveri sem er staðsett í Danmörku. 

Á ráðstefnunnivar undirrituð viljayfirlýsing um aukið samstarf milli Grænvangs og State of Green með það markmið að byggja á styrkleikum beggja þjóða og vinna saman að því að kynna grænar lausnir þjóðanna. Við sama tilefni sagði forseti Íslands að hún yrði verndari Grænvangs.

Á Facebook SI er hægt að nálgast fleiri myndir.

_MG_0654

_MG_0679

_MG_0723

_MG_0726

_MG_0749

8I3A0019

Sm-