Fréttasafn



23. okt. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök gagnavera

Forseti Íslands opnar ráðstefnu norræns gagnaversiðnaðar

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, er heiðursgestur og flytur opnunarávarp á ráðstefnu norræns gagnaversiðnaðar, Datacenter Forum, sem haldin er í Grósku á morgun þriðjudaginn 24. október. Ráðstefnan hefst kl. 8 og stendur til kl. 18.15.

Samtök gagnavera, DCI, eru meðal þeirra sem standa að viðburðinum en formaður samtakanna, Björn Brynjúlfsson, flytur erindi ásamt Þorvarði Sveinssyni, forstjóra Farice, og Haraldi Hallgrímssyni, framkvæmdastjóra hjá Landsvirkjun. Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, mun meðal annars stýra umræðum.

Datacenter Forum Nordics er nú haldin í Reykjavík í annað sinn. Ráðstefnan er sameiginlegur vettvangur norræns gagnaversiðnaðar, fyrirtækja í upplýsingatækni og annarra hagaðila þar sem fjallað er um þróun iðnaðarins. Á ráðstefnunni á morgun verður sérstök áhersla á sjálfbæra stafræna innviði Norðurlandanna og sérstöðu Íslands.

„Við erum virkilega stolt af því að forseti Íslands muni opna viðburðinn. Undirstrikar það mikilvægi gagnaversiðnaðar, ekki einungis af þeirri ástæðu að gagnaver eru nauðsynleg fyrir samfélagið heldur er einnig mikilvægt að halda á lofti sérstöðu Norðurlandanna, m.a. vegna sjálfbærrar endurnýjanlegrar orku, öryggis og svals loftslags á norrænum slóðum. Umhverfisþættir ásamt sterkum innviðum gera Ísland að ákjósanlegum stað fyrir starfsemi gagnavera. Það er þó í mörg horn að líta til þess að greinin geti haldið áfram að vaxa og dafna á Íslandi en það þarf þekkingu og skilning stjórnvalda sem og samfélagsins alls,“ segir Wes Vermeere, framkvæmdastjóri Datacenter Forum Nordics.

Dagskrá ráðstefnunnar má finna hér: Reykjavík 2023 - Upcoming Events, Training & Webinars - Datacenter Forum (datacenter-forum.com)


Morgunblaðið, 24. október 2023

Morgunbladid-24-10-2023