Fræðsluerindi um staðla fyrir málm- og véltæknifyrirtæki
Guðmundur Valsson, verkefnastjóri frá Staðlaráði Íslands, flutti fræðsluerindi um staðla og þýðingu þeirra fyrir málm- og véltækni á fundi Málms - samtaka fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði sem haldinn var í Húsi atvinnulífsins í gær auk þess sem fundinum var streymt rafrænt. Lilja Björk Guðmundsdóttir, viðskiptastjóri Málms, var fundarstjóri. Yfirskrift fundarins var Skipta staðlar máli fyrir rekstur fyrirtækja í málm- og véltækni?
Guðmundur kynnti starfsemi Staðlaráðs Íslands ásamt því að fræða fundargesti um samræmismat vegna faggildinga, skoðana, prófana og vottana. Þá var farið yfir CE merkingar og samspil við tilskipanir Evrópusambandsins. Að lokum sagði Guðmundur frá því að stofnuð hafi verið Fagstjórn í véltækni árið 1992 en starfsemin hafi legið niðri síðustu þrettán ár. Nefndin hafi á sínum tíma unnið að þróun CE námskeiða, þýðingum staðla um málmsuðu og matvælavinnsluvélar o.fl. og áhersla hafi verið á notkun staðla við áhættumat, aukna þekkingu málmiðnaðarmanna á sviði staðlanotkunar þ.á.m. innleiðing fræðslu um staðla í námsbrautir málmgreina.
Guðmundur velti upp þeirri spurningu hvort vilji væri að blása lífi á ný í fagstjórn í véltækni. Taldi hann æskilegt að tilnefna aðila í undirbúningsnefnd fyrir vinnustofu þar sem fulltrúar hagaðila færu yfir stöðu mála. Í framhaldi væri hægt að halda vinnustofu um staðla og véltækni og skoða hvort þörf sé á að útbúa eða þýða handbækur með staðlasöfnum. Lilja hvatti félagsmenn Málms til þess að íhuga hvort áhugi og þörf sé á að fara í slíka vinnu.
Hér er hægt að nálgast glærur Guðmundar frá fundinum.